Sýklalyf og grænar hægðir

10.05.2005

Hæ, hæ!

Vill byrja á að leggja fram þakklæti fyrir spurningar og svör sem hafa hjálpað mér rosalega mikið. Vandamál okkar mæðgnanna held ég að sé nú kannski ekkert stórt en ég vill frekar vera viss.

Það fannst einhver bakteríusýking í þvagi svo hún þarf að taka penisilín. Daginn eftir að hún byrjar að taka það byrjar hún að kúka grænum kúk og alveg skærgrænum takk fyrir. Segir það sig ekki sjálft að þetta séu lyfin því ég hef líka heyrt að það gæti verið að hún sé ekki að fá nóg af rjómanum í mjólkinni, en hún er eingöngu á brjósti. En alla vega stelpan mín sem kúkaði kannski tvisvar í viku kúkar sem sagt núna þrisvar á dag og grænum kúk.

Kær kveðja.

...................................................................

Sæl og blessuð móðir.

Þetta er mjög rökrétt ályktað hjá þér að litur hægðanna tengist lyfjagjöfinni. Það vantar reyndar tilfinnanlega hjá þér aldur barnsins því eins og þú kannski veist verður áberandi breyting á hægðamynstri um 6 vikna aldurinn. Ég gef mér að það sé ekki aldurinn. Og þú veist að hægðabreyting getur tengst of mikilli formjólk þannig að þú passar þá að það sé ekki að valda þessari breytingu. Það er ágæt regla að gefa fyrra brjóstið megnið af tímanum eða allan tímann ef gefið er eitt brjóst í gjöf. Nú er aftur slæmt að vita ekki hvað barnið er gamalt. Lyfjagjafir standa yfirleitt bara í nokkra daga svo þú sérð fljótt hvort þetta breytist aftur þegar lyfjagjöf lýkur. 

Með kveðju og von um að svörin nýtist,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
10. maí 2005.