Sýklalyf, með barn á brjósti

21.09.2006

Sælar!

Ég er að velta fyrir mér hvort sýklalyf hafi mikil áhrif á brjóstamjólk. Ég er með einn tveggja mánaða og þarf að taka Amoxicillin, 500 mg í 10 daga. Mér finnst hann búinn að vera pínu pirraður. Gæti það verið út af lyfjunum. Læknirinn sem skrifaði upp á lyfin sagði það í lagi að vera með barn á brjósti og taka þetta lyf. Með von um svör.

Takk, María.


Sæl og blessuð María.

Öll lyf fara að einhverju leyti yfir í brjóstamjólk en flest í afar litlu mæli. Sýklalyf sem læknir skrifar upp á vitandi að konan er með barn á brjósti eru í góðu lagi. Algengustu sýklalyf sem notuð eru hér á landi fara lítið yfir til barnanna og hafa yfirleitt engin áhrif á þau. Þau geta haft áhrif í þeim tilfellum sem konan er með ofnæmi eða óþol fyrir lyfinu en flestar konur vita um ofnæmi fyrirfram. Börn eru hins vegar gjarnan eitthvað pirruð eða ómöguleg í tengslum við veikindi móður sinnar. Það getar haft ýmsar aðrar orsakir.  

Vona að þessi svör hjálpi eitthvað. 

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
21. september 2006.