Tavegyl í brjóstagjöf

07.07.2010

Sælar og takk fyrir góðan vef!

Ég er með 3ja mánaða stelpuna mína á brjósti og er með svakalega mikið frjókornaofnæmi. Ég fékk lyfið Tavegyl frá lækni en í fylgiseðlinum stendur að það megi taka á meðgöngu en ekki við brjóstagjöf. Er mér þar með óhætt að taka lyfið? Ég er alveg rugluð. Eins mælti hann með Livostin nefúðanum, en með honum stendur að lyfið berist í brjóstamjólkina og sé í lagi að nota stöku sinnum. Hvað er "stöku sinnum" oft? Með von um skjót svör.

Rugluð ofnæmismamma.


 

Sæl og blessuð ruglaða ofnæmismamma!

Sem betur fer er frjókornaofnæmi tímabundið og það kemur oft í bylgjum. Tavegyl er kannski ekki fyrsta val á lyfi við svona ofnæmi í brjóstagjöf. Það eru hins vegar til mörg önnur lyf með sömu verkun sem er allt í lagi að nota í brjóstagjöf. Nefúða er hins vegar yfirleitt allt í lagi að nota. „Stöku sinnum“ má í þessu tilfelli túlka sem „þegar þörf er á“ án þess að það fari út í einhverja vitleysu.

Vona að þetta hjálpi.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
7. júlí 2010.