Tengsl milli hita og stíflu í brjósti

14.01.2010

Sæl og takk fyrir frábæra síðu!

Nú hef ég verið að fá hita af og til, þrisvar á nokkurra vikna fresti. Ég er með barn á brjósti (tæplega 4 mánaða) og ég fæ alltaf smá stíflu í mjólkurgangana í þessum hitaköstum. Ég er að fá 38.5°-39° stiga hita í hvert skipti í svona 1-3 daga. Mig langaði aðallega að forvitnast um hvort hitinn sé að fylgja stíflunum eða hvort stíflan fylgi hitanum. Ég hélt alltaf að stíflan væri að koma vegna hitans en maðurinn minn vill meina að það sé öfugt. Stíflan er oftast í öðru brjóstinu og svo bætist hitt brjóstið við í veikindunum (misjafnt hvort brjóstið sé á undan).

 


Sæl og blessuð!

Það er rétt sem maðurinn þinn heldur fram. Fyrst kemur svokölluð stífla (sem er þó ekki raunveruleg stífla) og henni fylgir oft hitahækkun. Það má líta á hitann sem merki frá líkamanum um að eitthvað þurfi að gera í málinu. Venjulega er nóg að láta barnið drekka mjög vel úr viðkomandi svæði brjóstsins. Þetta getur tekið nokkrar gjafir eða 2-3 daga en þá er málið yfirleitt leyst. Ef vandamálið er hins vegar sífellt að endurtaka sig þarf að huga að orsökinni. Gættu þess t.d. að breyta reglulega um gjafastelllingar.

Gangi þér vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
14. janúar 2010.