Tímamörk á aðstoð brjóstagjafaráðgjafa

04.07.2008

Langaði bara að forvitnast hvort einhver tímamörk væru á því að maður geti leitað til brjóstagjafaráðgjafanna? Mér er alltaf svo illt í annarri geirvörtunni, ekkert sár sjáanlegt. En drengurinn er orðin nokkurra mánaða. Er ég orðin of sein að fá ráðgjöf hjá ykkur?

Kveðja, Linda


Sæl og blessuð Linda.

Nei, það eru í raun engin tímamörk. Það er þó svo að ef börn eru orðin meira en nokkurra mánaða þá er mæðrum gjarnan vísað á heilsugæslustöð ef þær eiga góðan aðgang að henni og vandamálið virðist almenns eðlis. Þetta er þó alltaf mat í hverju tilfelli. Ástæðan er mikið vinnuálag á brjóstagjafaráðgjafa. Þeir komast einfaldlega ekki yfir að sinna öllu sem leitað er til þeirra með. Vonandi í framtíðinni verður aðstoð og aðstaða aukin og þá vandalaust að taka við öllum. 

Bestu kveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
4. júlí 2008.