Spurt og svarað

13. mars 2007

Tími milli gjafa hjá 4 vikna

Góðan dag og takk fyrir frábæran vef!

Hef verið að velta því fyrir mér hvort að það þyki óeðlilegt að 4 vikna stúlka drekki á 2 tíma fresti allan daginn (u.þ.b. 1½ á kvöldin og 3-5 á næturna). Og þá meina ég að það líði tveir tímar frá byrjun gjafar fram að byrjun næstu gjafar. Ætti ég að reyna að lengja tímann í 3 tíma? Hvenær dags er eðlilegt að styttra sé á milli gjafa? Hún þyngdist um 340 g á 5 dögum eftir að hún kom heim 3 daga gömul. Svo ekki nema um 140 g á 10 dögum og svo aftur um 260 g á viku. Hef haft miklar áhyggjur af brjóstagjöfinni útaf þessum 140 grömmum en róaðist aftur þegar hún þyngdist um 260 grömmin. Hún er frekar fljót að drekka eða u.þ.b 10 mín og þá læt ég hana ropa og reyni svo að setja hana aftur á sama brjóst, fyrst mótmælir hún en tekur það svo yfirleitt og drekkur kannski í 10 mín í viðbót. Tek það fram að hún kyngir oft í aukagjöfinni og virðist vera að fá helling. Ætli hún sé að fá nóg (og þá af feitu mjólkinni) ef hún drekkur bara í þessar 10 mín og ég hætti að neyða hana aftur á? Fékk mjög gamaldags og misvísandi leiðsögn hjá hjúkkunni minni sem sagði mér að gefa henni þurrmjólk þegar hún þyngdist ekki nóg, tek það fram að ég gerði það ekki. Og svo sagði hún að það gæti hugsast að hún fengi ekki feitu mjólkina og ráðlagði mér að mjólka framanaf fyrir hverja gjöf, sem ég gerði heldur ekki :)

Úff frekar langt, afsakið.

Kærar kveðjur, Bella.


Sæl og blessuð Bella.

Það er alls ekkert óeðlilegt við gjafamynstur þíns barns. Það hefur hvert barn sitt mynstur og það er mjög gott þegar þau fá að halda því í friði en eru ekki þvinguð í eitthvert annað mynstur. Mér finnst of mikið um að mæður reyni að þvinga börn í mynstur sem hentar þeim sjálfum en ekki börnunum og enn verra þegar þær reyna að þvinga þau í mynstur sem einhver segir þeim að sé æskilegt. Börnum er hægt að treysta fullkomlega til að drekka eftir því mynstri sem hentar þeim sem einstaklingum allra best. Og það er algengt að styttra sé á milli gjafa á kvöldin. Ef þetta mynstur gengur upp hjá ykkur þá skaltu ekki reyna að breyta því. Lengd gjafarinnar er þér líka óhætt að leyfa henni að stjórna meira. Hún er að þyngjast heldur of mikið þannig að seinni 10 mínútur eru óþarfar. Hún fær alveg nóg af feitri mjólk á þessum tíma. Ef barnið drekkur svona oft og vel, er frískleg og fín þá þarftu ekki einu sinni að vita þyngdaraukningu á viku. Það er algjört aukaatriði.

Vona að gangi svona vel áfram.       

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
13. mars 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.