Spurt og svarað

26. maí 2006

Tími milli gjafa og tímalengd á hverju brjósti

Sælar og takk fyrir góðan vef.

Ég er með einn 2 vikna gamlan dreng og langaði að spyrja hversu lengi á að gefa brjóst í einu, þá meina ég hvenær á maður að skipta um brjóst í gjöf. Ég mjólka mjög vel og það flæðir að því að virðist endalaust úr brjóstunum á mér. Þarf endilega að skipta yfir í hitt brjóstið meðan það kemur vel úr því sem barnið er á? Eins langaði mig líka að spyrja hvað á að líða langur tími milli gjafa til þess að maður skipti um brjóst.

Drengurinn hefur tekið upp á því síðustu daga að vilja vera á brjósti í allt að 2 tíma í senn og virðist oft vera orðinn svangur aftur eftir klukkutíma. Svona er rútínan hjá okkur bæði á nóttu og degi, það líða sjaldnast mikið meira en 2 tímar milli gjafa og þær eru oftast mjög langar.

Með fyrirfram þökk.


Sæl og blessuð.

Það eru til svona þumalputtareglur um hve lengi á að gefa eitt brjóst í gjöf áður en skipt er um brjóst. Fyrir 2ja vikna barn væri það 20-30 mín. Mér finnst hins vegar að líta beri á hvert barn sem einstakling sem þarf tíma sem hentar honum sérstaklega.

Svar við næstu spurningu er: Nei, það þarf ekki endilega að skipta um brjóst ef vel mjólkast úr því fyrsta.

Og síðasta svarið er: Það er oft miðað við að ef líður meira en u.þ.b. 20 mínútur frá gjöf þá er byrjað á nýju brjósti í nýrri gjöf. Þetta þarf sömuleiðis að miðast við hvern einstakling.

Breyting barnsins yfir í þessar löngu gjafir að undanförnu benda eindregið til sogvillu. Gæti verið að það hafi farið að fá snuð? Ef barn þarf 2 klukkustunda langar gjafir þýðir það að því gengur illa að ná til sín næringunni. Þetta þarftu að laga eða að fá hjálp til að laga. Barn á þessum aldri á að geta drukkið sig satt á 15-40 mínútum.

Gangi þér vel,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
26. maí 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.