Spurt og svarað

16. febrúar 2006

Töflur til að stöðva mjólkurframleiðslu

Góðan dag!

Ég á von á mér um miðjan september 2006.  Mig langaði að spyrja ykkur um meðgönguna.  Eftir að ég eignaðist fyrsta barnið mitt á árinu 2001, gekk brjóstagjöf frekar illa og kom rosalega mikil mjólk í brjóstin. Afleiðingarnar voru að húðin togaðist í allar áttir og þurfti ég að láta það í lýtaaðgerð.  Nú er ég komin 8 vikur á leið og hafa brjóstin stækkað í samræmi við meðgöngudagatalið.  Læknirinn sagði mér á sínum tíma að ólíklegt væri að ég gæti verið með næstu börn á brjósti.  Þess vegna vildi ég spyrja af því ég veit um einhverjar töflur sem hægt er að taka til að stöðva mjólkurframleiðslu í brjóstum.  Vitið þið hvaða töflur þetta eru? Hvenær sé í lagi að taka þær og hvort þær hafi aukaverkanir? Ætti ég taka þær núna strax, til að brjóstin hætta að stækka?   Ég væri þakklát fyrir skjót svör.

Með kærri kveðju og þökk.

.....................................................................................................

Sæl og blessuð.

Það er nú kannski ekki alveg útilokað að þú getir haft barn á brjósti. Það skiptir miklu máli hvernig til tekst með aðgerðir og hversu langt líður frá aðgerð að meðgöngu. Aðgerðin þarf að hafa verið mjög róttæk til að ekki sé hægt að hafa barn á brjósti seinna meir. Stækkun, slit og aflögun brjósta verður á meðgöngunni en ekki eftir fæðingu ef brjóstagjafaferlið er eðlilegt á fyrstu dögum eftir fæðingu. Það er mikill misskilningur ef konur halda að aflögun brjósta gerist í brjóstagjöfinni. Það eru til nokkrar gerðir af töflum sem vinna að því að draga úr mjólkurframleiðslunni en engin sem stöðvar hana alveg. Þær eru stundum teknar fljótt eftir fæðinguna eða seinna en það er þó orðið frekar sjaldgæft. Flestar gerðir hafa slæmar aukaverkanir og það er kannski helsta ástæðan fyrir að þær eru lítið notaðar. Mun auðveldari og betri aðferð er lítil eða engin örvun. Nei, þessar töflur eru ekki teknar á meðgöngu.

Vona að ég hafi svarað því sem þú vildir vita,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
16. febrúar 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.