Spurt og svarað

06. maí 2005

Toilax og brjóstagjöf

Hæ!

Ég er með barn á brjósti sem er 6 vikna og ég er með mjög mikla hægðatregðu og hvorki Microlax né Sorbitol eru að gera sig. Ég reyni að drekka mikið vatn, fara út að ganga og borða trefjar svo sem þurrkaðar apríkósur og sveskjur en ekkert gengur það bara situr allt fast. Langaði að vita hvers vegna ekki má taka toilax með barn á brjósti fyrst að lyfið skilst ekki út í brjóstamjólkina.

Kveðja,
ein stífluð.

....................................................................

Sæl og blessuð frú stífluð.

Þetta hlýtur að vera leiðinda ástand á þér. En lagast vonandi fljótt og vel. Það eru svolítið misvísandi upplýsingar um hvort óhætt sé að nota Toilax samfara brjóstagjöf. Í íslensku sérlyfjaskránni er sagt að ekki sé óhætt að nota lyfið meðan verið er með barn á brjósti en í sænsku sérlyfjaskránni (FASS) er talað um að lyfið berist yfir í brjóstamjólk en eigi þó ekki að hafa áhrif á barnið sem er á brjósti. Í sænsku sérlyfjaskránni er sagt óhætt að nota lyfið  tímabundið meðan á brjóstagjöf stendur en þó alltaf í samráði við lækni. Samkvæmt „biblíu“ okkar ljósmæðra og brjóstagjafaráðgjafa um lyf og brjóstagjöf, Medications and Mother's milk: A Manual of Lacatational Pharmacology er í lagi að nota Toilax meðan á brjóstagjöf stendur. Eins og þú segir sjálf þá er það ekki tekið upp í maga, virkar aðallega innan þarmanna og kemst varla yfir í mjólkina hvað þá annað. 

Gangi þér vel.

Bestu kveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
6. maí 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.