Spurt og svarað

30. ágúst 2006

Tollir ekki á brjóstinu

Heil og sæl og takk fyrir góðan vef!

Ég er með einn 10 vikna sem er eingöngu á brjósti. Mig langar að vita hvort það sé eðlilegt að á 2 mínútum þarf ég oft að setja vörtuna upp í hann svona 4-6 sinnum, það er eins og hann renni bara af. Þetta er aðallega þegar hann er á vinstra brjóstinu. Hann virðist taka það hægra betur en þó gerist þetta þar líka. Þetta orsakar það að ég þarf allan tímann sem hann er að drekka að halda um brjóstið með annarri hendinni og höfuðið á honum með hinni og þ.a.l. er ég komin með frekar stífar axlir og aumt bak.Vil taka það fram að þetta hefur verið svona frá upphafi og hann hætti að nota snuð fyrir 2 vikum síðan þegar hann uppgötvaði á sér þumalputtann.

Með fyrirfram þökk, Nanna.


Sæl og blessuð Nanna!

Það eru sum börn sem eiga í meiri erfiðleikum en önnur að halda góðu taki á brjósti. Þetta hefur með það að gera að hafa nægan kraft í vörum, munni og kjálkum svo og að ná tækninni við að samræma hreyfingarnar rétt. Þetta lagast með aldrinum en það er aldrei hægt að segja hvenær það verður.  Þú hefur gert vel með því að vera svona þolinmóð við hann þannig að hann nær þeirri mjólk sem hann þarf. Þú þarft að vera þolinmóð áfram þangað til hann nær tökum á þessu. Það getur hjálpað að reyna að finna út aðferðir til að veita honum sérlega góðan stuðning í gjöfunum (meiri en þú hefur verið að veita) með púðum, koddum, upprúlluðum handklæðum. örmum á stólum, hnénu á þér o.s.frv. Það skiptir engu máli hvað aðrir halda um aðferðirnar ef þær bara vika fyrir ykkur. Svo skaltu reyna að æfa þig áfram í að troða vörtunni nógu langt upp í hann og halda við þar til hann er kominn vel í gang. Það getur hjálpað honum að æfa sig aukalega á sogi. Þú getur æft hann með því að láta hann sjúga puttann á þér Stingdu honum bara stutt upp í muninn á honum þannig að hann þurfi að setja varirnar þétt saman. Hann má lika endilega sjúga hendurnar á sér hvernig sem hann vill.

Vonandi hjálpar þetta eitthvað. 

Kveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
30. ágúst 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.