Treo og brjóstagjöf

25.10.2009

Takk fyrir frábæran vef!

Ég var að velta fyrir mér hvaða áhrif það hefur á litla krílið mitt(5 vikna strákur) ef maður er að taka 1-2 Treo töflu kannski einu sinni til þrisvar í viku vegna höfuðverks? Er þetta að skaða hann eða hafa einhver slæm áhrif? Ég er með hann á brjósti og það gengur rosa vel. En ég hef endalausar áhyggjur þar sem lyfin fara yfir í brjóstamjólkina. Þetta getur nefnilega orðið talsvert slæmur höfuðverkur(mígreni). Höfuðverkurinn hefur aðeins aukist líklega út af óreglulegum svefni, en ég hef reyndar alltaf verið mjög slæm. Ég verð eiginlega að geta gert eitthvað í höfuðverknum svo hann endi ekki sem slæmt mígrenikast. Ég hef getað komið í veg fyrir þetta með því að taka yfirleitt 1 Treo.

Kv. áhyggjufulla mamman.

 


Sæl og blessuð áhyggjufulla mamma!

Það er í góðu lagi að taka þetta lyf og auðvitað mjög mikilvægt að koma í veg fyrir mígrenikast, bæði fyrir þig og barnið. Ef þú fengir kast þyrftirðu kannski að taka mun sterkari lyf og værir þar að auki ekki í góðu standi til að sinna barninu. Þannig að þú skalt líta á þetta sem góða forvörn fyrir ykkur.

Bestu óskir.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
25. október 2009.