Tvær ólíkar spurningar

01.09.2010

Ég vil byrja á því að þakka ykkur fyrir ofsalega góðan vef sem hefur hjálpað mér mikið. En það eru tvö atriði sem mig vantar aðstoð með. Fyrra er: Ég á 6 vikna gamlan son og á meðgöngunni fékk ég mikinn bjúg sem lagðist á fingur og fætur. Ég fann mikið fyrir honum í öllum liðum á fingrum og í hnjám. Ef ég þrýsti sitthvoru megin á kjúkurnar finn ég til. Ljósan mín sagði að þetta væri bjúgur sem lægi í liðunum. Málið er að þessir verkir eru ekkert að fara. Þeir hafa minnkað mikið í hnjánum og eitthvað aðeins í fingrunum en eru ekki alveg farnir. Getur bjúgur verið svona lengi að fara? Hitt málið er: Berst Acidophilus í móðurmjólkina? Málið er að sonur minn er á sterkum penicilín kúr sem fer mjög illa í mallan hans. Get ég aðstoðað hann með því að taka inn Acidophilus?

Með fyrirfram þökk.

 


Sæl og blessuð!

Varðandi þessa liðverki þá geta verið ýmsar ástæður fyrir þeim. Ég myndi ráðleggja þér að spyrja út í það í næstu heimsókn á heilsugæslustöðina. Bjúgur ætti að vera um það bil horfinn ef ekkert hefur haldið honum við.

Varðandi Acidophilus þá er hann bundinn við meltingarfærin þannig að hann fer ekki yfir í mjólkina. Þannig að þú getur ekki hjálpað með því að taka hann. Sem betur fer eru penisillín kúrar venjulega stuttir þannig að þetta gengur tiltölulega fljótt yfir. Það getur líka hjálpað ef þú gefur brjóst stuttu áður en barnið fær lyfið.

Bestu óskir.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
1. september 2010.