Tveggja mánaða sefur lengi á nóttunni

18.06.2008

Sælar og takk fyrir glæsilega og fræðandi vefsíðu.

Þannig eru mál með vexti að ég er með eina 2 mánaða og hún er alveg yndisleg en hún sefur ofsalega mikið alveg þannig að í nótt svaf hún 10 tíma án þess að vakna. Ég tek ekkert eftir þessu vegna ég sef og vaki með henni hún sefur oftast 7-8 tíma á nóttunni og hef ég spáð í hvort það væri of mikið. Á ég að vekja hana til að drekka og á ég að hafa áhyggjur af þessu? Ég hef bara ekki heyrt um þetta áður.

Kveðja.


Sæl og blessuð.

Að því gefnu að aðrir þættir séu í lagi. Þá á ég við að barnið drekki nógu oft yfir sólarhringinn og að það þyngist og dafni eðlilega þá er allt í lagi að þau taki langa svefntíma. Stundum eru þetta bara einstök fá skipti. Það eru frekar mæðurnar sem vakna þegar börnin sofa svona lengi. Stundum eru brjóstin orðin þanin og aum. Þá er líka rétti tíminn til að vekja barnið og gefa því.

Vona að gengi vel.

Bestu kveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
18. júní 2008.