Tvíburar eingöngu á brjósti

22.06.2008

Hæ, hæ!

Ég er með 8 vikna tvíbura (stelpu og strák) sem eru bæði eingöngu á brjósti. Mér finnst dagurinn ganga eiginlega bara út á það að ég sitji með þau á brjósti. Hvenær má ég búast við því að þau fari að verða fljótari að klára að drekka? Er orðin smeyk um að þetta fari að verða lýjandi. Dæmigerður dagur hjá okkur er kannski á þessa leið:8-9 vakna þau og fá að drekka, vaka síðan í u.þ.b. 2-3 tíma áður en þau drekka aftur og fara þá út í vagn í 2-3 tíma (þetta er yndislega rútínan). En svo kemur það sem ég er að gefast upp á. Um 13-15 vakna þau og vilja nánast liggja á brjóstinu á 30-60 mínútna fresti. Taka stutta blundi - helst í sitthvoru lagi. Svona er þetta þangað til að þau fara að sofa um 22-00. Það er sem sé tímabilið milli 13-22 (+/- 2 tímar) sem er að gera út af við þolinmæðina mína. Eigið þið einhver ráð?


Sælar og til hamingju með tvíburana þína!

Það er erfitt að gefa ráð án þess að vita hvað þau voru þung þegar þau fæddust og hvernig þau þyngjast núna. En flest börn á þessum aldri eru að fara oft á brjóst yfir daginn. Þau eru líka oft í vaxtarkipp á þessu tímabili og þá þurfa þau að sjúga með stuttu millibili. Það er eitt sem mér dettur í hug og það er að þegar þú leggur þau á brjóst að láta þau sjúga í 20 til 30 mín í einu og byrja á því að láta líða um 1 klst á milli og reyna svo að lengja tímann í 1½ klst og gefa báðum í einu - þá færð þú betra hlé á milli gjafa. Oftast gengur það vel að gefa báðum í einu börnin venjast því.

Gangi þér vel.

Kveðja,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
22. júní 2008.