Tvíburar og ábót

20.04.2007

Sæl,

Ég á tvíbura sem fæddust fimm vikum fyrir tímann. Á spítalanum var byrjað að gefa þeim ábót þar sem sogið þeirra var svo veikt til að byrja með og hefur hún haldið áfram eftir að við komum heim, en þær eru tveggja vikna núna. Ég er að gefa þeim brjóst, brjóstamjólk í ábót og
svo pumpa ég fyrir næstu gjöf. Mér finnst þær vera farnar að styrkjast og taka brjóstið betur núna, og langar til að hætta ábótinni, en er ofsalega hrædd við að þær fái ekki nóg, þar sem þær voru litlar og grannar við fæðingu og eru fyrst núna farnar að þyngjast aðeins.

Á ég að þora að taka ábótina alveg út úr myndinni, eða ætti ég að halda áfram að pumpa brjóstamjólk og gefa þeim ef mér finnst þær ennþá svangar eftir brjóst ?

Ég vill þeim bara það besta, sem er auðvitað brjóstamjólkin, en það að gefa þeim brjóst, ábót og pumpa á þriggja tíma fresti er orðið rosalega tímafrekt og erfitt og ég er farin að sleppa stundum brjóstinu til að fá smá hvíld á milli gjafa, en er svo með bullandi samviskubit yfir því.

Öll ráð væru vel þegin.Sæl og blessuð, og til hamingju með tvíburana þína. Þegar mæður vilja minnka ábótina er um að gera að gera þetta í skrefum taka út eina og eina ábót og gefa þá bara brjóstið og smá saman að losna við ábótina. Svo fylgist þú með þyngdaraukningunni hjá þeim. Þetta getur tekið svolítinn tíma en með þolinmæði og þegar börnin verða stærri og sterkari að sjúga þá gengur þetta yfirleitt.
Ef það koma tímabil þar sem þér finnst þær svangar eftir brjóstagjöfina - þá er lítið annað að gera en að pumpa brjóstið og gefa þeim.

 
Gangi þér vel

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi.
20.04.2007.