Spurt og svarað

31. október 2009

Tvíburar-brjóstagjöf og ábót

Sælar ljósmæður!

Ég er með rúmlega þriggja mánaða tvíbura sem hafa nánast eingöngu verið á brjósti. Þeir fengu smá ábót fyrstu vikurnar vegna gulu en í rúma 2 mánuði hafa þeir eingöngu verið á brjósti og það hefur verið heilmikil vinna fyrir mig að ná að hafa það þannig. Í þriggja mánaða skoðun kom í ljós að annar tvíburinn hafði þyngst mjög lítið frá síðustu vigtun (ca 3 vikur) og var mér sagt að ég yrði að gefa honum pela eftir síðustu gjöf á kvöldin, eins mikið og hann vildi drekka. Bæði ljósmóðirin og læknirinn sögðu þetta og bara punktur. Ég var ekki alveg sátt við þetta en fékk samviskubit og fannst ég vera að svelta barnið. Ég hef verið að gera eins og mér var sagt gef pela á kvöldin og þá 100-120 ml. Reyndar hafði hann verið aðeins kvefaður dagana fyrir vigtun og frekar latur og eins kúkar hann sjaldan en hafði akkúrat kúkað vel deginum á undan. Nú er ég farin að velta fyrir mér hvort ég eigi að vera að gefa þessa ábót. Það er engin breyting á hegðun barnsins. Svo hef ég líka verið að lesa hérna á síðunni að brjóstamjólkin hafi aðeins verndandi áhrif gegn sjúkdómum og pestum fyrir þau börn sem eingöngu eru á brjósti. Er ég þá búin að eyðileggja þessi áhrif brjóstamjólkurinnar með því að gefa 1 pela á dag? Er bara vaninn að segja mæðrum strax að gefa pela ef þyngdaraukningin er ekki skv. einhverjum staðli í eitt skipti? Ég er frekar ráðvillt með þetta og veit ekki alveg hvað ég á að gera.

Með kveðju. Tvíburamamman.


 

Sæl og blessuð Tvíburamamman!

Það er frábært að heyra hvað gengur í raun vel. Þetta hljómar nú samt eins og þú getir vel verið með þau eingöngu á brjósti. Það er þó erfitt um að dæma ef engar eru tölurnar. Oft eru ákveðin mynstur sem myndast í vigt barna og það er það sem mest er horft á á heilsugæslustöðvum. Mér finnst þó harkalegt ef þyngdaraukning hefur aðeins verið lítil í eitt skipti að fórna verndinni fyrir sýkingum. Oft er gefinn sjéns í eitt skipti og kannski fengin vigtun fljótlega aftur en þetta er þó alltaf metið í hverju tilfelli fyrir sig.

Ég held að þú ættir að byrja á því að mjólka þig til að gefa í þessa kvöldábót í nokkra daga og ef þyngdaraukning er eðlileg og vel gengur þá getur barnið farið eingöngu á brjóst aftur. Sýkingarverndin ætti þá að vera komin aftur eftir 10-14 daga.

Gangi þér vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
31. október 2009.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.