Spurt og svarað

22. ágúst 2007

Undarlegt

Hvernig stendur a því að fróðleikur varðandi brjóstagjöf er svona misvísandi.  Þannig er mál með vexti að ljósan mín er gapandi hissa yfir því hvað ljósmæður á þessum vef eru á móti snuðum og vill meina að þau séu engan vegin „gervitorf".  Hún sagði mér aukinheldur að samkvæmt rannsóknum, þá drægi snuðnotkun úr vöggudauða, og þykir mér ansi alvarlegt mál ef ljósmæður á þessum vef geri sér grein fyrir þessum rannsóknum, en líti fram hjá þeim, einvörðungu til að koma nýmóðins brjóstaráðum að til nýbakaðra mæðra.  Drengurinn minn grét út í eitt frá fæðingu og samkvæmt öllu átti hann ekki að fá snuð.  Þegar ljósan mín hvatti mig til að láta af þessari vitleysu og gefa barninu bara snuð, þá fékk ég allt annað barn í hendurnar. Og viti menn,  barnið þyngist eðlilega og allan pakkann, en samt með snuð.  Það að auki, þrátt fyrir góðan vef, vil ég benda brjóstagjafaráðgjafa Katrínu Eddu á, að okkur hinum, sem gefum b-börnunum okkar snuð, þykir afskaplega leiðinlegt að lesa fremur harðorðaðar lýsingar á fólki og þeim hlut sem snuðið er.  Manni líður hreinlega eins og glæpamanni að hafa gerst svo brotlegur að hafa boðið barni sinu uppa þennan „óbjóð“.  Ef fólk á að taka mark á þér sem fagmanneskju, þá verður þú að velja þér orðalag sem misbýður ekki fólki. Með fullri virðingu fyrir þekkingu þinni, enda ekki verið að vega að henni, heldur orðanotkun varðandi snuð og þurrmjólk og allt annað sem virðist vera „bann bann“.

Annars þakka ég góðan vef sem hjálpaði mér út í það óendanlega á meðgöngu og fyrstu daga eftir fæðingu.

Kveðja,  Ein pirruð.


Sæl og blessuð „ein pirruð".

Eins og ég hef alltaf sagt þá eigið þið mína samúð alla að þurfa að reyna að botna í þessum mörgum misvísandi skilaboðum og fræðslu sem yfir ykkur dynja. Það er ekki auðvelt. Og það er erfitt að finna einhvern sökudólg í málinu. Ráð sem gefin eru varðandi brjóstagjöf koma úr ýmsum áttum, eru misgömul og misvönduð. Heilbrigðisstarfsfólki ber skylda til að fylgjast með nýjungum og hafa á takteinum það sem þykir best og réttast en það er því miður misbrestur á því stundum. Brjóstagjöf er líka geiri sem verður að vera mjög einstaklingsmiðaður.þ.e.a.s. það þarf oft að finna módelið sem hentar þessu einstaka barni en kannski ekki barninu við hliðina á því.En að þínu vandamáli. Snuð eru ekki bönnuð og hafa aldrei verið bönnuð. Það er alltaf val foreldra hvernig þau annast börn sín og fræðsla og ráðgjöf miðast við að hjálpa þeim að taka ákvörðun en ekki taka hana fyrir þau. Miðað við rannsóknir getur snuðanotkun truflað brjóstagjöf í byrjun. Þá er yfirleitt verið að tala um fyrstu 3 vikurnar. Eftir það virðist rétt suðanotkun (ekki gefið þegar barn er svangt)ekki trufla brjóstagjöf í langflestum tilfellum. Þetta á líka við varðandi regluna um snuð til að koma í veg fyrir vöggudauða. Þá er mælt með að brjóstagjöf sé komin í gott horf áður en snuð er tekið í notkun. Erfiðustu vandamál sem brjóstagjafaráðgjafar kljást við eru óumdeilanlega vandamál vegna sogvillu og þau eru ekkert lamb að leika sér við. Þannig að áfram verður mælt ákveðið með að forðast snuðnotkun barna fyrstu 3 vikurnar en að sjálfsögðu hver einstaklingur metinn fyrir sig.

Vona að þetta svar skýri eitthvað.

Bestu kveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
22. ágúst 2007.

Sjá einnig umfjöllum um sama efni í fyrirspurninni Snuð eða ekki snuð, misvísandi upplýsingar

og í greininni Ungbarn lagt til svefns.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.