Spurt og svarað

03. maí 2005

Undirbúningur fyrir brjóstagjöf - nauðsynlegur eða óþarfur?

Góðan daginn!

Það er alveg ótrúlegt hvað maður er að heyra frá hinum og þessum varðandi meðgöngu og fæðingu svo ég hef tekið þá ákvörðun að spyrja ljósuna mína og taka mark á hennar svörum, enda er hún fagmaður.  En nú er ég ekki búin að spyrja hana að þessu, en geri það í næstu skoðun. Hvernig er það, mælir þú með undirbúningi á geirvörtunum fyrir brjóstagjöf?
Er þess þörf eða er það alger óþarfi?  Mamma vinkonu minnar mælti staðfastlega með því að eftir hverja baðferð myndi ég nudda grófu handklæði yfir vörturnar og að þetta myndi undirbúa þær vel undir átökin sem eftir koma.  Þar sem systir mín fékk mikil sár við brjóstagjöf á geirvörturnar langar mig til að vita hvort það sé eitthvað sem hægt er að gera til að undirbúa sig undir brjóstagjöfina.

Takk fyrir.

...................................................................


Sæl og blessuð verðandi mamma!

Líkamlegur undirbúningur á geirvörtum á meðgöngu er enginn. Það getur verið gott að draga úr notkun allra aukaefna á húð. Nota litla sápu og þá bara milda í baði eða sturtu. Ekki nota olíur, krem, áburði eða púður nema sem allra, allra minnst. Það eru litlir kirtlar á vörtubaugnum sem auka starfsemi sýna margfalt á meðgöngu. Þeirra hlutverk er að undirbúa vörturnar með framleiðslu fituefna sem mýkja og smyrja. Okkar hlutverk er bara að láta vörtur í friði og gefa kirtlunum sem best tækifæri til að vinna sitt starf. Fyrir mörgum árum komst það í tísku að undirbúa vörtur á mjög harkalegan hátt. Þá áttu konur að þurrka vörtur sínar með grófu handklæði, helst oft á dag. Þær hörðustu notuðu naglabursta eða tannbursta á þær. Þær áttu líka að klípa í þær, toga og snúa upp á og fleira í þeim dúr. Ég þarf ekki að taka fram að þetta var ekki það tímabil þar sem lítið var um sárar vörtur eftir fæðingu heldur þvert á móti voru sár mun algengari og stundum komu konurnar með flakandi vörtusár á fæðingardeildina. Það kom sem sagt fljótlega í ljós að þessar ráðstafanir skiluðu engu og rannsóknir sem gerðir hafa verið síðan um undirbúning geirvarta á meðgöngu sýna að því minna sem átt er við þær því betra. Undirbúningur geirvarta fyrir fæðingu er fyrst og fremst andlegur, þ.e.a.s. fræðsla og þekking. Það er komið í veg fyrir sárar vörtur með því að láta barnið grípa vörtuna rétt hafa barnið vel staðsett og styðja vel við það í gjöfinni. Einbeittu þér að læra um þá þætti fyrir fæðinguna eins og hægt er, fáðu góða tilsögn við fyrstu gjafirnar og eftir það er þetta bara æfing.

Með von um að þú fáir gott „start”.

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
3. maí 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.