Spurt og svarað

15. nóvember 2004

Undirbúningur fyrir næstu brjóstagjöf

Sælar enn og aftur.

Takk fyrir frábæran og góðan vef. Mín fyrirspurn er varðandi byrjun á brjóstagjöf. Ég sem sagt geng með 3. barn núna og brjóstagjafir hafa klúðrast í bæði hin skiptin.

Fyrsta tók illa brjóstið í upphafi svo fór að blæða úr báðum og nokkrum dögum seinna grafa í þeim báðum þannig að mér var bannað að gefa. Fyrsta áfallið þar.

Næsta barn byrjaði alveg frábærlega, tók rétt og allt það en svaf lon og don. Ljósmóðirin heimtaði að ég gæfi ábót með og mælti með pela svo ég hlýddi og það kom miklu meira úr pelanum heldur en brjóstinu svo hann varð fyrir valinu, annað áfallið.

Nú langar mig svo að vera með þetta barn bara á brjósti en er samt svo smeyk um að eitthvað fari úrskeiðis að ég er að farast. Þannig að ég spyr á að undirbúa brjóstin eitthvað sérstaklega fyrir brjóstagjöf? Hvenær er lang best að leggja á brjóst eftir fæðingu? Ég er búin að lesa mér svona svolítið til um þetta núna en mér finnst svo mismunandi svörin og skoðanir um þetta allt saman.

Með fyrirfram þökk.
Kveðja, bumba 3.

.......................................................................

Sæl og blessuð Bumba 3.

Já, það væri óskandi að þetta gengi upp hjá þér núna. Það er ágætt hjá þér að byrja á að fara yfir fyrri mistök og læra af þeim til að hægt sé að sneiða hjá þeim pyttum núna.

Fyrsta barnið tók illa sem getur skrifast á skort á aðstoð og kennslu. Það blæðir og grefur í sem er bein afleiðing þess að barn tók illa. Þér er svo bannað að gefa brjóst sem á alls ekki að gera og er ekki nógu góð meðhöndlun þeirra sem önnuðust þig. Hvort sem grafið hefur í vörtu eða brjósti er það aldrei partur af meðferðinni að hætta brjóstagjöf. Þvert á móti er hún hluti meðferðarinnar.

Annað barn tók rétt brjóst þannig að mjög líklega verður sá þáttur í lagi núna. Þú segir að það hafi sofið mikið en það kemur ekki fram hvort það voru lyfjaáhrif, fyrirburður eða hvað. Það er yfirleitt ástæða fyrir syfju. Nú, stundum reynist nauðsynlegt að gefa ábót í þeim tilfellum sem engin leið er að vekja barn og fá til að sjúga brjóst. Þá ábót má alls ekki gefa með pela og þetta á hver einasta ljósmóðir að vita. Það kemur ekki fram hve mörg ár eru síðan annað barnið þitt fæddist en fyrir nokkuð mörgum árum var algengt að börn fengju ábót úr pela. Það eru reyndar enn til ljósmæður sem ekki hafa látið af þeirri trú sinni að barn eigi að fá úr pela ef það ekki fær brjóst en þær eru ekki margar.

Þú átt ekki að þurfa að vera smeyk við að eitthvað fari úrskeiðis núna. Það er afar ótrúlegt að þetta takist ekki í 3ja sinn. Varðandi undirbúning brjóstanna þá er hann bestur því minni sem hann er. Helst á ekkert að gera við brjóstin eða vörturnar á meðgöngu. Undirbúningurinn er mestur andlegur þ.e. söfnun upplýsinga og fróðleiks (því meira, því betra). Gættu þess aðeins að efnið sem þú ert að skoða og lesa sé sem nýjast, vandaðast og eftir fagfólk en ekki fólk sem byggir aðeins á reynslu af eigin börnum. Ef þú notast við vandað efni sérðu fljótt að heimildum ber nokkuð vel saman.

Þú spyrð líka hvenær best sé að leggja á brjóst í fyrsta sinn. Þar gildir reglan því fyrr, þeim mun betra. Á fyrsta hálftímanum er best, á fyrsta klukkutímanum næstbest , á fyrstu tveimur klukkutímunum nauðsynlegt ef allt er í lagi. Eftir það alltaf þegar barnið sýnir merki um að vilja sjúga. Ekki vekja barn nema meira en 4 klst. líða á milli. Og ekki gefa fullburða barni ábót fyrstu 2 sólarhringana. Vertu bara sterk og staðföst og þá gengur fínt.

Með bestu óskum um styrk í næstu brjóstagjöf,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
15. nóvember 2004.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.