Dökka línan á bumbunni

16.01.2008

 Sælar.
Ég leitaði að gömlum fyrirspurnum um þetta málefni en fann hvergi svo ég ákvað að prófa þetta.
Ég er með þessa línu á kúlunni sem mér skilst að allar óléttar konur fái og í mínu tilfelli dökknar hún eftir því sem lengra líður á meðgönguna og nú hef ég tekið eftir því að þessi lína er dálítið ójöfn fyrir neðan nafla svona eins og hún taki góða sveigu í kringum naflann. Og utan um naflann er ég með dökkan hring og línan heldur áfram upp kúluna bein ...nánast í beinu framhaldi af þeirri neðri áður en hún beygir....
Ég er svo sem ekkert rosalega stressuð yfir þessu, enda veit ég að húðin er að teygjast og sona eins og gengur og gerist, en eftir því sem línan dökknar tek ég eftir því hvernig hún liggur og spyr því hvort það merki eitthvað sérstakt að hafa ekki beina línu upp að nafla ?

virðingarfyllst Bumbulina


Sæl Bumbulína.

Nei þetta merkir ekkert sérstakt.  Húðin getur verið að slitna á þessu svæði þar sem sveigjan kemur, eða að vöðvalögin undir fara mismikið í sundur með stækkandki kúlu.  Ef þú ert með ör kringum naflann getur það haft áhrif og svo bara uppbygging vefjanna á þessu svæði.

Kveðja

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
16. janúar 2008