Ungbörn og sykurvatn

11.10.2009

Ég er á einn sem er rúmlega 3ja mánaða og er á brjósti. Málið er  að ég er einnig í námi og þarf að skreppa frá 2var í viku í tíma en þá ekki lengur en í rúmlega 4 klukkutíma í senn. Hann drekkur á 3ja tíma fresti oftast og ég reyni að gefa honum rétt áður en ég fer. Mér hefur verið ráðlagt að láta gefa honum sykurvatn ef hann verður svangur áður en ég kem heim. Ég hef hinsvegar verið að heyra ýmislegt um það eins og að það geti skemmt tennurnar og fari illa í magann og að hreint vatn geti verið slæmt fyrir barnið. Mamma notaði þetta nú með okkur systkinin og okkur varð nákvæmlega ekkert meint af. En hvað segið þið um þetta? Ef það er í lagi að nota sykurvatn, hversu mikið af sykri á maður að blanda í vatnið?


Sæl og blessuð!

Það er ekki í lagi að nota sykurvatn handa ungbörnum. Þetta var notað hér áður fyrr þegar fólk vissi ekki betur en það er búið að finna með rannsóknum að sykurvatn á alls ekki að gefa börnum fyrstu 6 mánuðina. Ég ráðlegg þér að mjólka þig og eiga eina gjöf í kæli eða frysti til að grípa í ef þarf.

Með bestu kveðjum.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
11. október 2009.