Utanlandför föður með ungabarn

05.01.2014
Heilar og sælar!
Er búin að liggja mikið yfir þessum vef seinasta árið og er innilega þakklát fyrir allan þann fróðleik sem finnst hér. Faðirinn er í fæðingarorlofi og þarf að skreppa til heimalands síns vegna pappírsvinnu í um 2-3 vikur. Spurningin er hvort hann eigi að taka barnið með sér sem er enn á brjósti og verður þá 10 mánaða. Vangaveltur mínar eru tvíþættar: 1.Ég las einhverstaðar að aðskilnaður milli móður og barns ætti helst ekki að vera svo langur vegna tengslamyndunar barnsins síðar meir. 2. Varðandi brjóstagjöfina þá hef ég 2 mánuði þangað til hann fer til að trappa niður brjóstagjöfina og hætta. Barnið þarf ekki tæknilega lengur brjóstagjöf er það, við 10 mánaða aldur? Hafið þið einhverjar ráðleggingar handa okkur?
Með fyrirfram þökk.

Sæl og blessuð og takk fyrir hlý orð í okkar garð!
Þetta er ekki í sjálfu sér spurning um brjóstagjöfina. Þetta er kannski meira spurning um af hverju faðirinn vill, eða hvort hann vill fara með barnið. Það er í sjálfu sér aldrei æskilegt að ung börn séu fjarri foreldrum sínum en þó er það tiltölulega algengt nú til dags. Þetta er alveg hægt, eins og þú ert búin að reikna út, brjóstagjafarinnar vegna. Ég held að þið ættuð að reyna að finna þá lausn sem er heppilegust fyrir alla viðkomandi og þá er barni sett í fyrsta sæti, síðan foreldrar, svo aðrir.
Gangi ykkur vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
5. janúar 2014