Utanlandsferð án brjóstabarns

06.11.2008

Sælar!

Ég hef leitað að svörum við spurningum mínum en ekki fundið á vefnum. Svo ég prófa að senda ykkur póst. Ég er að fara til útlanda eftir 3 vikur og er með strák sem verður 7,5 mánaða þegar ég fer út (fer út á fimmtudegi og heim á sunnudegi). Hann fær graut tvisvar á dag og borðar vel. Hann þyngist og dafnar eðlilega og drekkur sirka 5 sinnum á sólarhring (sefur í 10 tíma yfir nótt án þess að drekka). Þarf ég að safna mjólk handa honum til að eiga á meðan ég er úti? Þarf ég að mjólka mig eins oft úti og ég gef honum? Er nóg að nota handpumpu eða á ég að leigja rafmagnspumpu? Eru miklar líkur á að hann hafni brjóstinu þegar ég kem heim aftur? Tek það fram að hann drekkur ekki úr stútkönnu, pela eða nokkru öðru en brjóstunum á mér.

Bestu þakkir fyrir frábæran og gagnlegan vef.

 

 

Sæl og blessuð.

Það er ekki nauðsynlegt fyrir þig að safna mjólk handa barninu. Þetta er nokkuð sem þú velur. Hann er nógu gamall til að fá stoðmjólk á meðan en það er líka gott fyrir hann að fá þína mjólk.

Þú þarft að mjólka þig 2-3 sinnum á sólarhring að lágmarki á meðan þú ert erlendis og handpumpa ætti að vera nægileg. Þú ættir að finna vel á brjóstunum ef þú þarft að mjólka þig oftar.

Ég veit ekki hversu miklar líkur eru á höfnun þegar þú kemur aftur en þær eru all nokkrar.

Vona að vel gangi og góða ferð.

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
6. nóvember 2008.