Spurt og svarað

11. nóvember 2007

Vandamál með 2 ára túttara

Hæ og takk fyrir góða síðu!

Sonur minn er 2 ára og er ennþá á brjósti. Hann drekkur hjá mér snemma á morgnana, eftir leikskólann og fyrir svefninn á kvöldin. Ég býð honum aldrei að fá að drekka heldur sækir hann stíft eftir þessu. Oftast reyni ég að segja nei ef hann vill fá á öðrum tímum, því hann getur fundið upp á því að hlaupa mörgum sinnum fram og tilbaka bara til að fá nokkra sopa. Þetta er mjög notalegt og það virðist vera að hann hafi tilfinningalega þörf fyrir þetta. Hann er mjög líflegur og það virðist vera að þegar hann drekkur hjá mér þá róar hann sig og fær sér smá pásu. Ég er voða þakklát fyrir kúrið. en nú að vandamálinu. Hann vaknar upp á nóttinni og kemur yfir í okkar rúm, hann veit að hann fær ekki að drekka hjá mér í rúminu en þá vill hann frekar hafa hendurnar á brjóstunum í staðinn. Hann klípur og nuddar brjóstin og róast ekki. Hann bröltir og stundum í mjög langan tíma, meira en klukkutíma og ég vakna oft upp á nóttinni. Ég reyni að færa hendurnar á honum og fela mig undir sænginni, liggja með hendurnar yfir bringunni en hann er mjög ákafur og tryllist alveg ef hann fær ekki eins og hann vill. Ég verð mjög pirruð og stundum reið yfir að hann vill ekki liggja kyrr en þá grætur hann einhver ósköp og ég sé strax eftir að hafa orðið reið, hann er auðvitað svo lítill. Það er orðið þannig að ég hef fært mig inn í stofuna og sef þar, stundum hefur það gengið en síðustu nætur hafa verið hreint út sagt hræðilegar. Hann vaknar og grætur, fær að koma til pabba síns. Pabbi á mjög erfitt með að halda honum inni í svefnherberginu því hann grætur eftir mér og er alveg brjálaður. Í nótt grét hann og öskraði í 2 tíma. Allir nágrannar vöknuðu alveg örugglega og það endaði með því að hann komst inn í stofu og upp í sófa og þar hélt hann áfram að gráta til að fá að klípa í mig. Það endaði með því að pabbi hans sótti hann og bara hann aftur inn í svefnherbergi og þar sofnaði hann eftir mikinn grát. Pabbi hans segir að þetta sé allt brjóstagjöfinni að kenna, að það eigi bara að hætta að gefa honum. Ég er svosem sammála að brjóstagjöfin er ástæðan. En ég veit ekki hvernig ég ætti að fara að því að hætta. Hann hlýtur að hafa mikla þörf fyrir þetta fyrst hann biður svo mikið um þetta. Mig langaði svo að láta hann ráða ferðinni, en nú veit ég ekki hvernig það á að ganga. Mun hann hætta sjálfur á brjósti, ég hélt að flest börn hættu sjálf fyrir 3 ára aldur, er það rétt? Hvað finnst ykkur? Á ég að hætta að gefa honum? Gæti það ekki haft mjög slæm áhrif á hann? Gæti honum ekki fundist ég hafna honum? Ég vil ekki taka eitthvað frá honum ef það er mjög mikilvægt fyrir hann.

Með von um svar.


Sæl og blessuð!

Það sem þú ert að lýsa er í aðalatriðum ekki viðkomandi brjóstagjöf. Það er að segja brjóstagjöfin virðist ganga vel kvölds og morgna og þannig getur hún gengið í u.þ.b. 1-2 ár í viðbót. Hann hættir henni sjálfur. Það er engin ástæða fyrir þig að hætta henni. Það myndi ekki breyta nóttunum. Vandamálið með næturnar er allt annað. Það er líklegra að það tengist öryggistilfinningu. Barnið er að fullvissa sig um að þú sért til staðar fyrir það og að það geti fundið fyrir þér. Mikil snertiþörf er í grunninn þörf fyrir öryggi. Svo mikil þörf fyrir öryggi kemur yfirleitt í tímabilum hjá börnum en getur verið óvenju mikið eða viðvarandi ef mikið rót er á tilveru barnsins eða mikið um breytingar. Ég myndi mæla með að þú uppfylltir þessar þarfir barnsins eins og aðrar og biðir róleg eftir að skeiðið gangi yfir. Annars gæti það já, haft slæm áhrif á barnið.  Eitt gamalt og gott ráð við næturóróleika er að þreyta börn fyrir svefninn. Láta þau djöflast í smá tíma, Setja þau svo í heitt og gott bað og gefa þeim svo vel af mat til að þau verði ekki svöng.

Vona að þetta hjálpi.         

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
11. nóvember 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.