Spurt og svarað

20. nóvember 2006

Vandamál við brjóstagjöf, 10 vikna barn fætt fyrir tímann

Sæl!

Þannig er að ég eignaðist mitt fyrsta barn 2. september síðastliðinn og kom hann aðeins fyrir tímann, eða u.þ.b. mánuði. Málið er að hann hefur tekið brjóstið vitlaust síðan hann byrjaði að sjúga. Hann tók ekki brjóstið fyrstu vikunna, kunni ekki að sjúga. Auk þess féll hann í sykri og fékk gulu. Því var dælt í hann þurrmjólk upp á spítala en svo var reynt að koma honum á brjóst áður en við fórum heim, án árangurs. Þegar við komum heim byrjaði hann að taka brjóstið en tók það vitlaust. Nú eru að verða 10 vikur frá því að hann fæddist og hann er enn að meiða mig og stundum nær hann ekki að taka brjóstið. Þetta hefur því verið mikill barningur en hann dafnar vel og þyngist.  Mér er farið að kvíða fyrir að setja hann á brjóst og er orðin langþreytt af of litlum svefni á næturnar. Ég er búin að fara til brjóstagjafaráðgjafa nokkrum sinnum, hún hefur komið heim og hjálpað mér en mér finnst hann ekkert vera að ná þessu:( Ég er með næga mjólk og finnst því synd að hætta með hann á brjósti. Er möguleiki að ég gæti mjólkað mig og gefið honum pela eða getur það valdi offramleiðslu á mjólkinni? Ég hef varla þolinmæði í þetta lengur eins og staðan er. Á ég að láta þetta ganga endalaust svona? Hvað get ég gert?

Með fyrirfram þökk.


Sæl og blessuð.

Það er mjög þreytandi til lengdar þegar svona erfitt er að fá börn til að sjúga rétt. Þetta er týpisk sogvilla, en það tekur stundum margar vikur að leiðrétta hana og einstaka sinnum reynist það algerlega ógerlegt. Þú verður að meta sjálf hversu lengi þú reynir við að gefa beint brjóstið. Samkvæmt minni reynslu getur það tekið uppí 8 vikur með góðri kennslu og fullum stuðningi en þá hefur það tekist. Það er sjaldan verið að reyna mikið lengur. Nú veit ég ekki frá hvaða tíma þú telur þannig að kannski áttu einhvern tíma inni. Mér finnst að þú eigir að fullreyna það áður en þú snýrð þér að öðrum aðferðum. Þetta hljómar nú kannski svolítið þannig hjá þér að það þurfi að skoða vel vörturnar svo það sé örugglega ekki eitthvað á þeim sem er að valda þér sársauka. Ef þér finnst hins vegar að þú sért búin með allan reynslutíma þá er góður möguleiki á að mjólka og gefa með pela. Það er jú næst besti kosturinn.

Nei, það er ekki hætta á offramleiðslu mjólkur, það er meiri hætta á vanframleiðslu. Ef þú ert hins vegar með svona góða mjólk þá er líklegt að þér takist að halda henni áfram einhvern tíma Það er ekki hægt að segja um það hversu lengi en þú verður bara að sjá til. Allavega er barnið að fá mjólkina þína núna í margar vikur og það er jú fyrir mestu. Þú er búin að leggja mikið af mörkum.    

Gangi þér vel.              

Kær kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
20. nóvember 2006.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.