Spurt og svarað

13. apríl 2009

Vandræði eftir aðgerð

Sælar og takk fyrir góðan vef!

 Ég eignaðist dreng fyrir 5 vikum og hann dafnar vel. Í fyrstu gekk brjóstagjöfin heldur illa en svo var mér ráðlagt að nota mexikanahatt og síðan þá hefur gengið vel. Mér hefur líka nokkrum sinnum tekist að fá hann til að drekka án hattsins en stundum meiddi hann mig dálítið. Ég ætlaði að fara að gera mikið átak í því að losa mig við hattinn þegar ég lenti á spítala og þurfti að fara í aðgerð og liggja inni í 5 daga. Ég mjólkaði mig á spítalanum og hellti mjólkinni því ég vildi ekki gefa honum hana með öllum þeim lyfjum sem verið var að dæla í mig. Nú er ég komin heim og held áfram að mjólka mig og hella því ég er enn á lyfjum sem ég vil síður að hann fái. Mjólkin hefur hins vegar minnkað mjög mikið og það er eins og stíflur séu að myndast í brjóstunum. Ég hef reynt að mjólka mig oft og nudda brjóstin á meðan til að reyna að koma í veg fyrir stíflur. Mig langar mikið að halda áfram að gefa honum brjóst og helst að sleppa hattinum strax, og þess vegna langar mig að spyrja ykkur hvernig er best fyrir mig að ná upp mjólkinni?

 


Sæl og blessuð!

Það er í raun mjög einfalt svar við þessari spurningu. Leggðu barnið strax á beint á brjóst. Þú þarf mjög líklega ekki að hafa neinar áhyggjur af lyfjunum og mjólkin fer sennilega ekki að aukast fyrr en barnið kemur beint að brjóstinu. Þá fara öll líkamlegu viðbrögðin í gang. Þá ertu líka um leið laus við þessu stíflueinkenni sem koma oft þegar barn sýgur ekki beint úr brjósti.

Það er mögulegt að barnið láti illa við brjóstið til að byrja með þannig að þú átt svolitla vinnu fyrir höndum en það ætti þó ekki að taka nema fáa daga. Það skiptir líka máli að þú náir að setja vörtuna langt upp í munn barnsins svo það meiði þig ekki þannig að ef þú ert óviss um það atriði skaltu fá hjálp við það.

Gangi þér vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
13. apríl 2009.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.