Spurt og svarað

30. ágúst 2005

Vandræði með hjálparbrjóstið o.fl.

Góðan daginn!

Dóttir mín er að verða 4ja mánaða og að gefa brjóst hefur verið ansi erfitt tvo síðustu mánuðina.  En í dag er ég með hjálparbrjóstið til að gefa henni ábót og það virkaði alveg ágætlega til að byrja með.  Í dag neitar hún að taka brjóstið algjörlega, vill ekki sjá þessar leiðslur og neitar síðan alveg brjóstinu.  Hún tekur ekki pela, drekkur ekki úr stútkönnu, ekkert virkar.  Er alveg að  fara yfir um varðandi þetta. Málið er að hún var búin að þyngjast lítið þegar að hún fór í 3ja mánaða skoðunina en hjúkrunarfræðingurinn var ánægð með hana.  Á þeim tíma var hún ansi oft á brjósti og var að byrja að verða óróleg á nóttunni.  Hafði alltaf sofið vel um nóttina.  Hún tók hjálparbrjóstinu vel til að byrja með og ég var alveg rosalega ánægð með það, leið miklu betur því að hún er ekkert nema beinin. Hvað get ég gert? Vil helst hætta með hana á brjósti því að ég get þetta bara ekki lengur.  Liði miklu betur ef að ég myndi hætta.  Dóttir mín dafnar mjög vel og er kát en ég vil helst að hjálparbrjóstið virki. Hvað er til ráða?

Takk fyrir.

.............................................................................

Sæl og blessuð.

Ég verð að viðurkenna að ég er í pínulitlum vandræðum með að túlka hvað þú átt við. Þú segir dóttur þína „dafna mjög vel“ en aðeins áður „ekkert nema beinin“. Ég sé náttúrlega mjög vel að þetta er búið að vera erfitt, en það getur samt verið að þú þurfir á frekari hjálp að halda. Hjálparbrjóst er yfirleitt bara tæki til að komast yfir tímabundin vandræði en ekki til að nota til frambúðar. Þannig að ef barnið er að hafna hjálparbrjóstinu þá getur það verið gott mál. Það er nokkuð oft sem að einmitt leiðslurnar fara að trufla þau og ef ekki er hægt að komast framhjá því þá verður að finna aðra leið. Ef að barnið vill ekki pela eða stútkönnu eða neitt annað eins og þú segir þá þýðir auðvitað ekki að tala um að hætta með það á brjósti í næstu setningu. Hún verður að fá næringuna sína einhversstaðar. Ég veit svo sem ekki hvort þú hefur næga mjólk. Það kemur ekki fram hvað er í hjálparbrjóstinu. Ef þú ert með næga mjólk þá þarftu að fá hjálp til að kenna barninu betur að sjúga brjóst. Þá máttu búast við að barnið vilji sjúga oft til að byrja með. Ef þú ert ekki með næga mjólk þá þarftu sennilega meiri örvun til að hvetja brjóstin til meiri mjólkurmyndunar ef það er það sem þú vilt. Ef þú vilt gefa brjóst að hluta til en þurrmjólk í ábót þá getur brjóstamjólkin verið ótrúlega fljót að minnka. Ábótina er hægt að gefa á margan annan hátt en úr hjálparbrjósti t.d. skeið, sprautu, staupi, pela með annarri túttu o.s.frv. Ef þú vilt hætta brjóstagjöf þá þarftu náttúrlega fyrst að vera viss um aðra leið til næra barnið. Þá þarftu að trappa niður örvunina á brjóstin smám saman á nokkrum vikum til að lenda ekki í að fá þrota og óþægindin í brjóstin eða rýr brjóst eftir að snögghætt er. Þannig að það er að mörgu að hyggja. Eins og ég segi þá er bréfið þitt svolítið ruglingslegt en ég vona bara að þú hafir einhvern til að tala við sem getur leiðbeint þér á ábyrgan hátt.

Með bestu óskum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
30. ágúst 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.