Vanlíðan í brjóstagjöf

28.11.2009

Hæhæ!

Ég er með eina spurningu varðandi brjóstagjöf. Ég hef verið að upplifa vanlíðan á meðan brjóstagjöf stendur en ég skil ekkert af hverju. Mér líður annars bara nokkuð vel og finn ekkert fyrir þessari vanlíðan öðrum stundum. Ég er búin að vera svona í 2-3 vikur núna. Það er erfitt að útskýra þessa tilfinningu. Þetta er ekki depurð og ég vil alls ekki sleppa brjóstagjöfinni sem gengur annars vel. Mér datt helst í hug að eitthvað líkamlegt sé að valda þessu. Getur verið að einhver hormón myndist við brjóstagjöfina sem valda þessari vanlíðan? Ég hef aldrei heyrt um þetta frá öðrum konum og ég finn ekkert um þetta á netinu. Mér finnst ég vera svolítið ein í heiminum með þetta. Ég þori varla að segja þetta upphátt og tók mig smá tíma að viðurkenna þetta fyrir sjálfri mér.

 


Sæl og blessuð!

Þetta er vel þekkt fyrirbæri í brjóstagjafaheiminum. Það er rétt hjá þér að þetta er af líkamlegum toga og tengist hormónum. Margar upplifa þetta meira sem hálfgerða ógleði eða jafnvel bara meiriháttar ógleði. Það eru til dæmi um konur sem kasta upp við nánast hverja gjöf.

Þú getur reynt að prófa þig áfram með að borða eitthvað smá fyrir gjöf, maula piparmyntu eða brjóstsykur í gjöf eða drekka kalt te.

Vona að þetta hjálpi.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
28. nóvember 2009.