Spurt og svarað

20. febrúar 2008

Vantar nákvæmari upplýsingar um ábót/graut með brjóstamjólk

Hæ, hó og takk fyrir glæsilega upplýsingaveitu!

Ég á stóran 4 mánaða gamlan dreng. Hann fæddist 20 merkur (58 cm) og hefur þyngst mjög vel. Hann hefur alltaf verið á brjósti, ég hef alltaf mjólkað vel og hef gjarnan mjólkað mig til þess að hafa klárt ef ég get ekki gefið honum brjóst. Málið með hann er að hann er svakalegur ælukall! Ég hef alltaf nefnt það við hjúkrunarfræðinginn og lækninn en þau tala alltaf um að svo lengi sem hann þyngist þarf ekki að hafa áhyggjur af því. Hjúkkan tók reyndar eftir ælunum hjá honum síðast og hafði orð á því að þetta væri mjög mikið.

Ég tel mig þurfa að gefa honum meiri mjólk en ég þyrfti ef hann væri ekki svona mikill ælumaður. Hann drekkur alltaf bæði brjóstin og mér líður ekki vel ef ég á ekki til í frysti fyrir hann til öryggis. Ég mjólka mig yfirleitt á kvöldin áður en ég fer að sofa og er þá að mjólka 200-300 ml. En hann drekkur það yfirleitt allt daginn eftir (ég veit að þetta er auka vesen og eiginlega bara tilfærsla á gjöfum en ég er að reyna að ná í auka byrgðir). Hann virðist ekki verða saddur. Ég verð mjög sjaldan vör við það að hann hætti sjálfur að drekka, hann vill alltaf meira og er alltaf að sjúga á sér hnefann... eða sjúga bara hvað sem er eiginlega og fólk er alltaf að halda því fram að hann sé svangur. Einhvern tíman las ég að ælubörnum er stundum gefinn smá grautur til þess að fá fylling í magann en ég vil helst þrjóskast við að gefa honum eingöngu brjóstamjólk til 6 mánaða aldurs (þrátt fyrir vantrú margra í kring).Síðustu daga hefur mjólkin reyndar verið smá stund að koma (losunarviðbragðið) og hann verður ösku reiður. og hef lesið að það sé eðlilegt í kringum 4 mánaða aldurinn en lagast það ekki? Ég stefni á að nudda geirvörturnar o.s.frv til þess að fá þetta af stað en mun ég þurfa hér eftir?

Með tímanum er ég samt sem áður farin að hallast að því að það geti varla skaðað að gefa honum nokkrar teskeiðar af graut eftir brjóstagjöf, einu sinni á dag. Mig langar sem sagt að vita: Af hverju er ekki æskilegt að börn fái annað en brjóstamjólk fyrir 6 mánaða aldur. Ég hef lesið hér á þessum vef að maður geti fengið það í hausinn seinna meir en af hverju? Ég veit að brjóstamjólkin er besta næringin sem barnið getur fengið og að í henni eru næringarefni sem ekki er hægt að fá úr öðru o.s.frv. En af hverju? Er hægt að fá þetta í hausinn seinna meir? Ég væri í raun að gefa honum það sama og hann hefur verið að fá og ég ætla að mjólka mig og reyna að örva framleiðsluna eins og ég get en hafa graut til að hlaupa upp á.

Hvað nákvæmlega er ég að gera honum illt með því að gefa honum vel útþynntan (með móðurmjólk) graut einstaka sinnum? Er búin að leita vel og lengi í spurt og svarað og brjóstakorni en ekki fundið svar við spurningu minni.

Kveðja, Lára.


Sæl og blessuð Lára.

Það sem aðallega er átt við með að fá í hausinn seinna ef verið er að gefa mat of snemma hefur með ónæmiskerfi barna að gera. Þau fæðast með mjög ófullkomið ónæmiskerfi og eru illa í stakk búin að ráða við ýmsar sýkingar. Kerfið byrjar strax að byggjast upp en það tekur langan tíma. Á meðan gefur brjóstamjólkin börnum ákveðna vernd. Um 6 mánaða aldurinn er ónæmiskerfið nokkurn vegin tilbúið að taka við ýmsum óboðnum gestum og þá er talið óhætt að fara að gefa annað fæði en brjóstamjólk. Meltingarfæri barna eru líka ekki gerð til að melta annað en mjólk og allur annar matur veldur óhóflegu álagi á þau. Það er önnur ástæða þess að beðið er. Þriðja ástæðan er ofnæmi. En ofnæmisvaldar sem kynntir eru snemma fyrir barni geta valdið því ævilöngu óþoli fyrir viðkomandi efni. Ofnæmi er vaxandi vandamál í heiminum og ein aðalástæða þess er óþolinmæði mæðra að kynna nýjar fæðutegundir fyrir börnum sínum of snemma. Það sem maður getur fengið í hausinn eru fyrst og fremst sýkingar af ýmsum toga, meltingarfæravandamál og ofnæmi barna.  

Brjóstamjólkin er besta næringin eins og þú sagðir réttilega. Hún inniheldur öll efni sem barnið þarf. Það gerir engin önnur fæða. Hún hefur alltaf bestu samsetningu efnanna og hún breytir sér eftir því sem þarfir barnsins breytast.

Það er mikill misskilningur að börn þurfi mat þótt þau séu stór og þyngist hratt. Það er einmitt merki um að þau þrífist vel á brjóstamjólkinni. Það liggur ekkert á að fara að gefa mat. Hjá 6 mánaða börnum er það stundum upphafið af vandamálum og hjá yngri börnum er það oft upphafið að vandamálum.

Þú ert í, eins og þú veist sjálf tilfærslu á gjöfum sem oft er bara aukavinna. Stundum eru svona tilfærslur óheppilegar fyrir börn. Brjóstin eru þá hvött til framleiðslu á tíma sem þau myndu annars ekki framleiða. Það gerir heildarframleiðsluna stundum rýrari eða þynnri. Það hvetur barnið aftur á móti til aukinnar drykkju á tímum sem þau myndu annars ekki drekka mikið. Það borgar sig yfirleitt ekki að reyna að breyta fullkomnu kerfi og ég hvet þig til að reyna í nokkra daga að láta kerfið stjórna sér sjálft án þess að grípa inn í og sjá hvort að það komi ekki jákvætt út.

Með kærri kveðju,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
20. febrúar 2008.

 

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.