Varðandi Psoriasis á vörtubaugum

15.09.2013
Góðan dag!
 Ég er með 11 mánaða strák á brjósti og er með psoriasis sem hefur verið að versna síðustu tvo til þrjá mánuði. Þegar hann var farinn að fá tennur lágu þær fast við vörtubaugana í gjöfum og ég er oft með tannaför eftir gjafir. Út af því álagi á húðina eru komnir psoriasis blettir á vörtubaugana. Það er samt eiginlega ekkert vont. Í svari hér á síðunni um psoriasis og brjóstagjöf (http://ljosmodir.is/?Page=FAQ&ID=2595&Cat=5#2595) segir að ef útbrot komi á vörtubaugana á brjóstagjafatímanum þurfi að grípa inn í með meðferð strax. Mig langaði bara að spyrja af hvaða ástæðu það er? Fyrirfram kærar þakkir.

Sæl og blessuð!
Ástæðan fyrir því að mælt er með meðferð strax er að á þessum tíma geta útbrotin stækkað og breiðst út nokkuð hratt og orðið til þess að ekki er hægt að halda brjóstagjöfinni áfram. Því er mælt með meðferð strax til að stöðva útbreiðsluna og varðveita brjóstagjöfina. Það hefur líka borið á þeim misskilningi að ekki sé hægt að halda brjóstagjöfinni áfram ef meðferð er hafin. Það er hins vegar vel hægt. Kremið er borið á 1-2 sinnum á dag og bara þarf að passa að gefa ekki brjóstið næsta hálftímann á eftir.
Vona að þetta gangi vel hjá þér.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
15. september 2013.