Varðveisla næringarefna í brjóstamjólk

18.09.2008

Sælar og takka fyrir afar fróðlegan vef.

Ef ég er að mjólka mig og veit að barnið mun drekka einhverntímann á næstu 4 klst. hvort er þá betra að geyma mjólkina við stofuhita þangað til barnið vill drekka eða stinga henni beint í ískápinn og hita upp þegar barnið vill drekka? Með hvorri aðferðinni varðveitast betur næringar- og mótefni mjólkurinnar?Sæl og blessuð.

Ég myndi ráðleggja þér að hafa hana við herbergishita ef gefa á eftir 4 klst. eða minna. Þannig er hún ferskust og tapar minnst af eiginleikum. Um leið og farið er að kæla mjólk byrjar hún að tapa ýmsum eiginleikum og enn meira sé hún fryst. Það þarf samt líka að passa að nota réttar geymsluaðferðir ef um lengri tíma er að ræða til koma í veg fyrir skemmdir rétt eins og við aðra matvöru.

Gangi þér vel.                   

Katrín Edda Magnúsdótttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi.
17. september 2008.