Spurt og svarað

14. janúar 2010

Vatn fyrir 3ja mánaða

Sælar!

Ég á þriggja mánaða son sem er bara á brjósti. Brjóstagjöfin hefur gengið mjög vel sem má sjá á kinnum hans. Síðustu nætur hefur hann þó verið mjög órólegur og verið að rembast mikið og með miklum látum sem endar svo með því að hann kúkar. Ég talaði um þetta við lækninn í ungbarnaverndinni og hann sagði að ég væri að öllum líkindum með svona feita mjólk og að hann væri með hægðatregðu. Hann ráðlagði mér að gefa honum vatn á kvöldin til að vega upp á móti feitu mjólkinni svo að hann geti losað betur frá sér. Ég gleymdi aftur á móti að spyrja hversu mikið vatn á ég að gefa honum. Ég hef verið að gefa honum um 100ml á kvöldi (hann hefur skánað helling eftir að ég byrjaði á þessu) og þar sem að hann vill ekki drekka vatnið eitt og sér þá hef ég sett smá sykur út í það. Mér líkar samt frekar illa við að gefa honum svona sykurvatn á hverju kvöldi upp á tennurnar sem eiga svo eftir að koma upp. Því var ég að hugsa hvort að ekki væri í lagi að mjólka mig á morgnana þar sem að ég mjólka mjög vel þá og þynna það út með vatni til að gefa honum á kvöldin og koma þannig vatninu ofan í hann?

 


Sæl og blessuð!

Það á ekki að gefa svo ungum börnum neitt annað en brjóstamjólk ef þess er nokkur kostur. Þau þurfa ekki á því að halda og það rýrir næringu barns að gefa því vatn. Það eru skýr fyrirmæli frá alþjóða heilbrigðisstofnum um þetta þannnig að ráðleggingar hafa þarna eitthvað farið forgörðum. Þér er alveg óhætt að sleppa þessari vatnsgjöf og leita annarra leiða til að róa barnið á nóttunni. Þetta sem þú nefnir með að mjólka á morgnana til að gefa á kvöldin (náttúrlega án vatns)er umdeilt. Það er aukavinna og margir sem halda því fram að morgunmjólk haldi einmitt börnum vakandi um nætur. Þú getur þó auðvitað prófað það ef þú vilt því að stöku mæðrum finnst það gefast vel.

Með bestu kveðjum.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
14. janúar 2010

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.