Vax í brjóstum

15.05.2011
Sælar!
Ég er tveggja barna móðir, á einn 5 ára og eina 4 vikna. Eftir að ég átti strákinn minn þá var ég með hann á brjósti í 12 vikur en eftir það fékk ég einskonar skán á geirvörturnar samskonar og konan lýsir í spurningu hjá ykkur sem heitir: "Vax" í brjóstum og kúla á naflastreng. En mín spurning er hversu lengi er eðlilegt að þetta sé á geirvörtunum? Þetta var ennþá á geirvörtunum hjá mér þegar ég varð ófrísk í annað skipti, rúmum 4 árum eftir að strákurinn hætti á brjósti. Ég reyndi fyrst að plokka þetta af og nota gott brjóstakrem á vörturnar en þetta kom alltaf aftur þannig að ég lét þetta alveg í friði en samt var ekkert fararsnið á þessu. Þetta truflar mig töluvert útlitslega og ég vil gjarnan losna við þetta núna þegar ég mun hætta með stelpuna mína á brjósti. Hvað ætti ég að gera? Virkar að fá lyf hjá lækni til að láta mjólkina hætta að koma?
 
Sæl og blessuð!
Ef um jafna skán yfir toppinn er að ræða ættirðu að athuga með að skafa hana af eða fá hjálp við það. Það er svo betra að fylgja því eftir með mildu skrúbbi í nokkra daga. Ef þetta er meira eins og vaxbólur getur þurft að stinga á og kreista út til að þær fari alveg. Þú getur líka reynt að gera það sjálf en gæta þá vel að hreinlæti. Heilbrigðisstarfsfólk gæti líka verið hjálplegt.
Það er yfirleitt ekki mælt með lyfjum til að minnka mjólkurframleiðslu nema í fáum tilvikum. Þau hafa stundum slæmar aukaverkanir og virka þar að auki lítið ef framleiðsla er í fullum gangi. Það er alltaf betri kostur að minnka framleiðsluna smám saman með fækkun gjafa. Og því hægar sem er hætt þeim mun  fallegri verða brjóstin að brjóstagjöf lokinni.
Með bestu óskum.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
15. maí 2011.