Vaxtakippur eða mömmusýki?

25.05.2005

Hæ, hæ!

Ég var að spá...

...litla 4 og ½ mánaða stelpan mín er þessa dagana alltaf á brjóstinu eða á 1 og ½ tíma fresti!Hún hefur síðustu 2 mánuði sofið alla nóttina til kl. 7.30, einstök skipti sem hún vaknar kl. 5 en svo eftir gjöf þá sefur hún til kl. 9 en það skiptir engu máli núna hvort það er dagur eða nótt. Hún er reyndar að taka út 3 mánaða vaxtarkippinn sinn núna því það bólaði ekkert á honum þá og hún var undir eftirliti en ég meina getur vaxtarkippur tekið 2 vikur? Tek það fram að á einni viku (síðustu) stækkaði hún um næstum 2 cm og þyngdist um 270 gr en svo mikið hefur hún ekki þyngst bara síðan ég veit ekki hvenær. En alla vega, hún er bara á brjósti og ég er orðin pínu þreytt. Hvað er í gangi? ;ömmusýki eða 2 vikna eðlilegur vaxtakippatími? Tek það fram að í hvert sinn sem ég læt hana á brjóst þá drekkur hún eins og hún eins og hún sé að deyja úr hungri.

Kær kveðja og fyrirfram þakkir, mamma í pælingum.

......................................................................

Sæl og blessuð mamma í pælingum.

Mér finnst nú trúlegt að þetta sé vaxtarsprettur. Hegðunin sem þú lýsir minni mjög á það. Vaxtarsprettur stendur yfirleitt ekki lengur en nokkra daga. En það er ekki sama hvernig maður svarar þessum auknu kröfum. Það verður að vinna í því hörðum höndum að auka mjólkina. Leggja á brjóst alltaf þegar barnið biður um og nota skiptigjöf í það minnsta í flestum gjöfunum. Þetta er bara tímabil. Skiptigjöf notar maður ekki nema fáa daga í senn. Svo skiptir miklu að hlúa vel að mjólkurkúnni. Hún þarf að borða sérstaklega vel, drekka eftir þörfum, hvíla eins og hægt er hvort sem er að nóttu eða degi en jafnframt hreyfa sig eitthvað smávegis. Hreingerningar og annað meiriháttar vesen á heimilinu bíður. Þetta eru algjörlega ónýtir dagar ef hugsað er út frá framkvæmdum. Þeir fara eingöngu í brjóstagjöf. Síðan á ástandið fljótlega að færast í fyrra horf.

Með bestu óskum og von um að mjólkin aukist fljótt,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
25. maí 2005.