Verkir í brjósti eftir brjóstagjafarlok

21.11.2010
Góðan dag!
Mig langar að forvitnast. Ég er með fyrsta barn og var með hann á brjósti í 13 mánuði. Undir það síðasta aðeins 1 x fyrir svefninn. Nú eru liðnar ca. 7 vikur síðan ég hætti alveg með hann á brjósti og það var ekkert mál. Ég bjóst alltaf við einhverjum stíflum en það varð aldrei sem betur fer.Nú í vikunni fór ég hins vegar að fá verk í brjóstið við handarkrikann og virðist hann ekkert ætla að hverfa. Ég reyndi að setja hitapoka á þetta en ekkert lagast. Gæti þetta verið tengt brjóstagjöfinni eða er ástæða til að láta kanna það betur eins og t.d. á leitarstöð? Getur komið stífla allt í einu núna þrátt fyrir að ekkert hafi lekið eða neitt í þessar vikur síðan ég hætti með hann?
Kveðja Guðrún.

 
Sæl og blessuð Guðrún!
Mér finnst afar ótrúlegt að þessir verkir tengist liðinni brjóstagjöf  þótt aldrei sé hægt að útiloka neitt. Það eru sumar konur að tala um stingi og losunarviðbragðstilfinningu ofl. mörgum vikum og mánuðum eftir að brjóstagjöf lýkur og það telst fullkomlega eðlilegt. Þannig að spurningin er hversu slæmir þessir verkir eru. Ef þetta eru verkir sem trufla þig þá er skynsamlegt að fara til læknis og láta athuga þá. Ef ekki þá gæti verið í lagi að sjá til aðeins lengur.
Gangi þér vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
21. nóvember 2010.