Spurt og svarað

21. nóvember 2010

Verkir í brjósti eftir brjóstagjafarlok

Góðan dag!
Mig langar að forvitnast. Ég er með fyrsta barn og var með hann á brjósti í 13 mánuði. Undir það síðasta aðeins 1 x fyrir svefninn. Nú eru liðnar ca. 7 vikur síðan ég hætti alveg með hann á brjósti og það var ekkert mál. Ég bjóst alltaf við einhverjum stíflum en það varð aldrei sem betur fer.Nú í vikunni fór ég hins vegar að fá verk í brjóstið við handarkrikann og virðist hann ekkert ætla að hverfa. Ég reyndi að setja hitapoka á þetta en ekkert lagast. Gæti þetta verið tengt brjóstagjöfinni eða er ástæða til að láta kanna það betur eins og t.d. á leitarstöð? Getur komið stífla allt í einu núna þrátt fyrir að ekkert hafi lekið eða neitt í þessar vikur síðan ég hætti með hann?
Kveðja Guðrún.

 
Sæl og blessuð Guðrún!
Mér finnst afar ótrúlegt að þessir verkir tengist liðinni brjóstagjöf  þótt aldrei sé hægt að útiloka neitt. Það eru sumar konur að tala um stingi og losunarviðbragðstilfinningu ofl. mörgum vikum og mánuðum eftir að brjóstagjöf lýkur og það telst fullkomlega eðlilegt. Þannig að spurningin er hversu slæmir þessir verkir eru. Ef þetta eru verkir sem trufla þig þá er skynsamlegt að fara til læknis og láta athuga þá. Ef ekki þá gæti verið í lagi að sjá til aðeins lengur.
Gangi þér vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
21. nóvember 2010.
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.