Spurt og svarað

25. nóvember 2006

Verð á mjaltavélum

Hæ, hæ og takk fyrir góðan vef.

Ég er ein af þeim sem hef þurft að mjólka mig ofan í barnið mitt og er að spá hvort þið vitið hvort það sé einhvers staðar hægt að fá lánaðar brjóstapumpur á skynsamlegu verði. Ég vil náttúrulega veita barninu mínu brjóstamjólk sem lengst en finnst heldur hart að þurfa að borga 8.000 kr. á mánuði fyrir það, sérstaklega þar sem það er nú lagt svo rosalega mikið upp úr því að börn fái brjóstamjólk fyrstu mánuðina. Finnst því skrýtið að fólki sé ekki gert það auðveldara að sjá sér fært um að veita barninu brjóstamjólk ef það af einhverjum ástæðum getur ekki haft barnið á brjósti.

Með von um svar og fyrirfram þökk :0)


Sæl og blessuð!

Handpumpur eru aldrei lánaðar milli kvenna af hreinlætisástæðum en ég geri ráð fyrir að þú sért að tala um mjaltavélar. Það er hugsanlegt að einhverjar heilsugæslustöðvar séu með mjaltavélar til láns en ég veit bara ekki hverjar þær eru. Það er hægt að kaupa vélar sem ganga fyrir rafhlöðum sem eru næstum eins góðar og rafknúnar Þær kosta 9.800.kr. án mjaltasetts þannig að þær eru ekki nema rúman mánuð að borga sig. Ég er alveg sammála því að þetta er baggi á þeim sem þurfa að mjólka sig lengi og eru að leggja sig fram um að veita barni sínu bestu næringuna. Það er þó sá möguleiki fyrir hendi að leita styrks frá sjúkrasjóði stéttarfélags eða félagsþjónustunni en það hefur ekki enn tekist að fá Tryggingarstofnun til að taka þátt í þessum kostnaði þótt verið sé að vinna í því.

Vona að þér sé einhver hjálp í þessu,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
25. nóvember 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.