Spurt og svarað

08. september 2006

Verð ég ekki bara að fara að hætta þessari brjóstagjöf?

Kæru ljósmæður.

Mér finnst ég vera í stökustu vandræðum. Ég er með dóttur mína á brjósti, hún er 18 mánaða svo það væri ósköp eðlilegt að hún færi að hætta. Hins vegar njótum við báðar þessara stunda og því vil ég halda í þær þrátt fyrir ótrúlega andstöðu allra í kringum mig. Ég hef tekið það ráð að segja að ég sé hætt með hana á brjósti svo þetta er orðið fjölskylduleyndarmál! Fyrir nokkru síðan hafnaði hún öðru brjóstinu og vill helst ekki drekka úr því. Hún byrjar alltaf þar en hættir svo þegar mjólkin byrjar að streyma og vill skipta yfir á hitt. Þar drekkur hún bara vel. Ég hef leyft henni þetta en prófaði að mjólka mig og sá þá að mjólkin úr brjóstunum er gerólík hægra og vinstra megin! Hvað er eiginlega í gangi? Hún er gulari og verri á bragðið þeim megin sem skvísan drekkur ekki. Er eitthvað sem ég get gert til að kippa þessu í lag eða á ég bara að láta þetta duga? Ég hætti með eldri stelpuna 6 mánaða, hafði ekki þor til að standa gegn þessum þrýstingi sem virðist koma úr ólíklegustu áttum. Hvað kemur fólki þetta eiginlega við, mér er spurn. Vona að þið sjáið ykkur fært að svara mér.

Með fyrirfram þökk, brjóstamamma.

P.S. þess má geta að stúlkan mín hefur staðið af sér flest veikindi í kringum sig sem ég auðvitað þakka brjóstagjöfinni :) Maður verður að halda í eitthvað.Sæl og blessuð brjóstamamma.

Mér finnst þú standa þig frábærlega. En mér finnst mjög leiðinlegt fyrir þína hönd og allra annarra í sömu sporum þegar þið eruð reknar „inn í skáp“ með ykkar brjóstagjöf. En þetta er bara því miður staðan í þjóðfélaginu í dag. Þó að þið hafið svo nákvæmlega rétt fyrir ykkur að ykkar brjóstagjöf kemur engum við nema ykkur og ykkar börnum. Hún er einkamál. Hvernig þætti fólki ef rokið væri á það á veitingastað og haldin ræða yfir því um hvaða skoðanir viðkomandi hefði á neysluvenjum þeirra og hvernig best væri að það breytti til? Það sem er kannski einhver huggun er að vita að það er fullt af konum „inni í skápum“ sem gefa sínum börnum brjóst án þess að nokkur sjái eða viti af því. Þið megið allar vita að þið standið ekki einar og að það er ákveðinn fjöldi fólks sem styður ykkar skoðanir heilshugar (þótt það heyrist kannski ei alveg nógu mikið í þeim).Varðandi mismunandi mjólk í mismunandi brjóstum þá er það nú reyndar alltaf þannig þótt það sé ekki mikið um það talað. Þegar langt er liðið á brjóstagjöf getur þessi munur dýpkað og þá sérstaklega ákveðnum tíma tíðahringsins. Ekkert til að hafa áhyggjur af. Endilega láttu ekki fáfrótt fólk hafa af ykkur notalegustu stundirnar í lífinu og athugaðu að þið báðar búið að þessu alla ævi.

Brjóstagjafakveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
8. september 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.