Vesen með brjóstagjöf

16.12.2007

Ég er að glíma við vandamál varðandi brjóstagjöfina. Alveg síðan litli drengurinn minn fæddist. Hann er rúmlega tveggja vikna í dag hef ég verið í veseni með brjóstagjöfina.  Sama hvað ég reyni og reyni þá tekur hann brjóstið ekki rétt.  Alveg sama hve mikla hjálp ég hef fengið við það, meira segja frá heimaþjónustuljósmóðurinni sem er brjóstgjafarráðgjafi.  Núna er ég með svo aumar og bólgnar geirvörtur að það má ekkert koma við þær. Eg fæ bara verki í kringum geirvörtusvæðið upp úr þurru.  Samt mjólka ég alveg nóg, en málið er að ég er byrjuð að kvíða fyrir hverri brjóstagjöf, helmingurinn af tímanum fer í að reyna að troða brjóstinu upp í hann svo hann taki rétt, í öllum mögulegum gjafastellingum en það dugar ekkert svo að lokum þarf ég yfirleitt að gefast upp og láta hann bara sjúga vitlaust. Nú langar mig að spyrja, hvað get ég eiginlega gert?  Þetta er nefnilega byrjað að setjast mikið á sálina hjá mér og mér er byrjað að líða mjög illa yfir þessu.

Ein í vandræðum.


Sæl og blessuð.

Þetta hljómar ekki nógu vel hjá þér. Það er trúlegast að barnið þitt sé sogvillt og sé þess vegna ófáanlegt til að sjúga rétt. Það þarf að byrja á að taka allt út sem getur ruglað sogið og svo þarf hann að fá þjálfun í að sjúga rétt. Það er auðveldast að gera með því að láta hann sjúga putta reglulega. Einhverjum fingri (fingur sem er næstur vörtunni að stærð) er rennt inn í munninn eftir efri gómnum þar til komið er að brekku niður. Þá er stoppað en „brekkan“ nudduð annað slagið á meðan beðið er eftir að rétt sogviðbrögð kvikni. Það er ágætt að láta barnið sjúga puttann í fáar mínútur og hætta svo en gera þetta endurtekið á meðan barnið vakir. Þar að auki finnst mér lýsingin hljóma þannig að þú þurfir að láta skoða vörturnar á þér aftur. Ástand þeirra getur breyst hratt án þess að maður geri sér almennilega grein fyrir því og það er helst á færi fagmanna að sjá hvað er á seyði og hvaða ráða er hægt að grípa til. Ekki bíða með það. Þetta er ástand sem þarfnast frekar skjótra viðbragða.

Gangi þér vel. 

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
16. desember 2007.