Spurt og svarað

12. desember 2008

Vesen með brjóstagjöf

Sælar og takk fyrir frábæran vef!

 Ég er með 3ja mánaða dóttur sem er eingöngu á brjósti. Hún var mjög óvær fyrstu 3 mánuðina sem hófst á strax við fæðingu. Hún öskraði meira og minna allan daginn fyrstu 10 vikurnar í sínu lífi og er ástæðan líklega mjólkurofnæmi eða óþol, allavega þá snarhætti þetta við að taka öll mjólkurprótein úr minni fæðu. Ég var mikið með hana hjá læknum og í einni skoðuninni þegar hún var 11 vikna kom í ljós að hún hafði ekkert þyngst í 2 vikur. Ég keypti mjólkuraukandi töflur, Fenugreek og Alfalfa og drakk mjólkuraukandi te frá Weleda. Þetta virkaði vel og strax daginn eftir fann ég að það var komin talsverð mjólk. Vegna óværðar hafði ég ekki áttað mig á hungureinkennum. Ég fór reglulega á heilsugæsluna í ca 2 vikur og þyngdist hún vel. Svo reyndi ég að hætta að velta þessu fyrir mér. Ég fann að hún byrjaði aftur að neita að drekka og mér leið eins og ekkert væri í brjóstunum. Vandamálið er að hún bara öskrar á brjóstið ef það spýtist ekki úr því. Ég fór svo með hana í 3ja mánaða skoðun  og var hún þá bara búin að þyngjast um 65 gr á tveimur vikum. Ég fór því í Móðurást og keypti "more milk" töflurnar  og tek 1 til 2 á dag því það virðist nægja til að streymi vel úr brjóstunum á mér og hún er södd og sæl. Mér finnst þetta samt svo rangt. Mér finnst ekki að ég eigi að þurfa að taka einhverjar töflur til að það komi mjólk í brjóstin. Einnig tel ég litlar líkur á því að mjólk sem streymir fram að völdum einhverra taflna sé sú næringarríkasta. Ég ímynda mér að hún sé frekar mikil undanrenna. Því velti ég fyrir mér hvert vandamálið er hjá okkur. Hún hefur alltaf verið mjög fljót að drekka. Hættir hún of snemma, nær hún ekki að örva mjólkurmyndun? Fær hún ekki feitu mjólkina? Get ég einhvern veginn náð þessu í gang á náttúrulegan hátt án þess að vera að taka inn einhver lyf? Ég hafði hugsað mér að vera með hana helst meira en 6 mánuði bara á brjósti. Ég legg hana á brjóst á ca klukkutíma fresti á þessum hungurtímabilum hennar og þarf að ganga um til að fá hana til að sjúga aðeins en hún kyngir varla og bara orgar á brjóstið. Sveltir barnið sig frekar en að reyna að ná einhverju úr brjóstinu?

Með von um skjót svör. Kveðja.

 


Sæl og blessuð

Það er ekkert athugavert við það að nota þessar töflur til að viðhalda mjólkurmynduninni. Ef þær virka fyrir þig þá er það bara fínt. Mjólkin er alveg fullkomlega góð og alls ekkert öðruvísi en hjá öðrum konum.

Þessi óværðarköst sem þú talar um geta verið af ýmsum ástæðum. Það er vel líklegt í þínu tilfelli að um einhverja spennu milli ykkar tveggja sé að ræða. Það er auðvelt að falla í þá gryfju að ef barn lætur illa við brjóstinu verður mamma spennt og stíf. Við það hættir mjólkin að streyma fram. Þá verður barnið reitt og byrjar að öskra. Við það verður mamma enn stressaðri  og ástandið versnar. Þannig að þú gætir kannski lagað ástandið með að tileinka þér betri slökun á gjafatímum.

Nei, barnið sveltir sig ekki. Það heldur alltaf áfram að biðja um brjóstið ef það er svangt.

Vona að þetta hjálpi.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
12. desember 2008

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.