Spurt og svarað

17. febrúar 2008

Vill bara brjóst

Sæl og blessuð!

Ég hef verið í vandræðum með dóttir mína sem er 13 mánaða. Ég þarf að hætta með hana á brjósti samkvæmt læknisráði, sem allra fyrst. En málið er að hún er bara alveg sturluð ef hún fær ekki brjóstið sitt. Hún rífur í mig og reynir að rífa niður um mig fötin og lætur öllum illum látum. Ef pabbi hennar reynir að hugsa um hana þá er hún alveg jafn brjáluð. Hún er mjög skapmikið barn en ég hef aldrei séð neitt þessu líkt hjá henni, það er bara eins og við séum að svíkja hana um eitthvað þvílíkt. Hún er að fá tvisvar til þrisvar sinnum á dag að drekka og ég veit bara ekki hvernig ég á að snúa mér í að reyna að hætta þessu. Mér finnst ómögulegt að láta barnið gráta svona sárt og lengi. Ég tek það fram að ég mundi gjarnan vilja hafa hana lengur á brjósti og hafði ekki hugsað mér að hætta með hana svona snögglega.

Kær kveðja.


Sæl og blessuð.

Það getur verið mjög erfitt að hætta brjóstagjöf barns á þessum aldri. Eins og þú hefur kynnst eru börn komin með afar sjálfstæðan vilja á þessum tíma. Þú ert nú reyndar komin langleiðina með þetta en eftir standa 2 gjafir. Þú getur reynt í 2-4 daga að gefa „bara“ x 2 á dag og tekið svo aðra gjöfina út. Ekki taka út þá vinsælli. Þetta geturðu látið ganga í 3-5 daga og svo hættirðu alveg. Það gætu orðið læti í 1-2 daga en vonandi ekki lengur.

Það eru afar fáar læknisfræðilegar ástæður fyrir að hætta brjóstagjöf þannig að ég mæli með því að þú athugir vel hvort það sé virkilega nauðsynlegt í þínu tilfelli, hvort það er einhver möguleiki á að fresta aðgerðum eða að finna einhverja leið til að þessi litla brjóstagjöf geti haldið sér.

Með stuðningskveðjum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
17. febrúar 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.