Spurt og svarað

28. júní 2014

Vill bara brjóst sofandi

Málið er að ég er með barn númer 2. Fyrsta barni gaf ég bara brjóst í 2 mánuði því ég fór í skóla 8 tíma á dag þegar hún var 4 vikna og mjólkin þurrkaðist upp. Nú er ég komin með dóttur númer 2 og er í fæðingarorlofi. Það eina sem mig langar til að gera er að gefa brjóst í 6 mánuði. Þegar litla var 6 vikna varð hún mjög óróleg og ég spurði ljósuna hvað ég ætti að gera. (þar sem ég var varla með fyrsta barn á brjósti kunni ég ekkert að auka mjólk) Ljósan sagði mér að barnið mundi sjá um mjólkina sjálft. Ég ætti bara að gefa henni ábót ef henni vantaði auka. Ég gerði það yfir helgi og róaðist hún svolítið. Mánudagurinn kom (ég hafði gefið henni tæpa 4 pela) og barnið neitaði brjóstinu gjörsamlega. Ég var alveg miður mín. Ljósan gaf mér svo hjálparbrjóst en það var mjög erfitt að nota og er það enn. Hún hatar slönguna. Ég hef prófað mexikanska hattinn, vera með hana í svona "ring sling" og labba um gólfið eða verið liggjandi. Nú eru liðnar 2 vikur. Hún tekur brjóstið vel yfir nóttina og alltaf þegar hún er ný vöknuð yfir daginn. Hún er tæpar 5 mín. til samans á báðum brjóstum og vill svo ekki meira. Ég þarf svo að labba með hana lengi til að svæfa hana því hún er svöng en vill engan vegin brjóstið. Ef ég býð henni ábót eða mjólkaða brjóstamjólk í pela tekur hún það og sofnar. Ég er að verða hálf þunglynd því allir í kringum mig segja að ég eigi bara að hætta þessu rugli og gefa pela. Ég veit að hún er ekki að hafna mér, heldur brjóstinu en mér líður samt ömurlega að hafa gert þessi pela mistök. Heldurðu að það sé nokkur leið að fá hana til að taka brjóstið aftur? Með fyrirfram takk fyrir svar og vona svo innilega þið getið hjálpað mér.

Kv. sorgmædd móðir.
Sæl og blessuð sorgmædda móðir!

Það tekur mig sárt að þú skulir hafa lent í þessum ógöngum með brjóstagjöfina þína.Barnið er þó ennþá ungt og getur vel lært þetta betur. Þú virðist alveg geta framleitt næga mjólk svo þú þarft ekki að gefa ábót. Líkast til ertu með heldur hratt mjólkurflæði svo þú þarft að taka á því. Gefa alltaf liggjandi og halda þétt um brjóstið á meðan. Það eru nánari útskýringar á hvernig þú hægir á flæði hérna á síðunni í öðrum fyrirspurnum.Síðan þarftu að lengja gjafirnar eins og þú getur, reyna að gefa fyrra brjóstið í 10-15 mín. Láta barnið ropa vel og bjóða svo hitt brjóstið. Endilega notaðu svo þá staðreynd að hún sýgur betur hálfsofandi. Það getur verið að þú þurfir enn um sinn að ganga um gólf en það ætti að lagast þegar frá líður. Síðan er ekki hjálplegt að fá ráð um brjóstagjöf frá fólki sem aðeins bendir á pela, þannig að betra er að hlusta á þá sem hafa góða reynslu af brjóstagjöf og er virkilega að hjálpa þér við að laga þína. Það er líka rétt hjá þér að barnið er ekki að hafna þér eða brjóstinu heldur að mótmæla því hve illa þetta gengur eins og er. Gangi þér sem best.

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
28. júní 2014.


Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.