Vill bara mat, ekki brjóst

01.09.2010

Kæri brjóstaráðgjafi!

Ég vona að þú getir hjálpað mér með drenginn minn sem er 7 mánaða. Hann var eingöngu á brjósti til 6 mánaða aldurs og fór þá að fá graut með. Í dag fær hann 4 máltíðir á dag, grauta, ávaxta og grænmetismauk eins og mælt er með. Frá fyrstu skeið hefur hann elskað að borða. Brjóstagjöfin gekk alltaf mjög vel, hann er fyrir ofan meðaltal í þyngd og lengd, hefur verið kátur og sofið vel. En núna eftir að hann er farinn að borða vill hann ekki brjóstið lengur, verður bara fúll og snýr sér frá því. Eini tíminn sem hann drekkur er á nóttunni.Ég er mjög leið yfir þessu og hef áhyggjur hvort hann fái næga mjólk. Hann fær enga aðra mjólk, bara vatn með mat úr venjulegu glasi, (nota hvorki stútkönnu né pela). Getur verið að ég sé að gefa honum of mikið? Þetta er þriðja barnið mitt og hin hef ég haft á brjósti langt fram á annað árið og allt gengið vel. Ég hafði hugsað mér að gera eins með þennan. Hvað get ég gert til að hann hætti þessari brjóstahöfnun?

Með von um skjót svör,bestu kveðjur, áhyggjufull mamma.


 

Sæl og blessuð, Áhyggjufulla mamma!

Það getur verið svo skondið hvað börn eru misjöfn jafnvel þótt þau séu systkini. Hjá þessu barni gildir greinilega ekki sú aðferð sem þú hefur notað til afvenjunar. Það er nefnilega svo að aðferðirnar eru misjafnar. Það er ekki það að hann vilji ekki brjóstið heldur hvenær honum er boðið það. Hann er sáttur á nóttunni því þá er enginn matur í boði. Á daginn verðurðu að breyta því hvenær þú býður brjóstið. Þú getur prófað að bjóða brjóst á undan máltíð eða á einhverjum óvenjulegum tíma. Það getur líka skipt máli að minnka það sem hann drekkur. Það er nokkuð víst að hann þiggur nokkrar brjóstagjafir bara ef þær eru boðnar á annan hátt en áður.

Gangi þér vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
1. september 2010.