Spurt og svarað

03. maí 2006

Vill ekki brjóst eftir hlé, er 7 mánaða

Núna vantar mig ykkar hjálp,ráð og hughreysti...

Málið er að ég á dreng sem er 6 og hálfs mánaða. Þegar ég átti var hann lagður strax á brjóst en ég missti svo mikið blóð í fæðingunni að mér var rúllað inná skurðstofu klukkustund seinna til að ná í fylgjuna. Barnið fékk ég að sjá í 2 mín 9 klukkustundum seinna. Tveimur til þremur klukkustundum eftir ég fékk að sjá son minn þá fékk hann að koma til mín af vökudeildinni  (sem sagt 14 klukkustundum eftir fæðingu) og var honum bara rúllað inn til mín og hjúkkurnar fóru fram. Þetta er mitt fyrsta barn og mér var ekkert kennt almennilega á brjóstagjöfina nema þegar hann fæddist. Ég kunni náttúrulega ekkert á þetta með fyrsta barn. Eftir að hafa legið á sængurkvennadeildinni í 2 daga kom fyrst kona að sýna mér hvernig ég ætti að gera þetta og tróð barninu á brjóstið og fór fram. Meiri kennslu í brjóstagjöf fékk ég ekki. Ég var alltaf með miklar áhyggjur að barnið fengi ekki nóg og gaf honum því þurrmjólkurábót á pela þrisvar sinnum á dag. Þegar hann var um 2 mánaða vildi hann bara drekka og drekka. Hann saug í 2 mínútur og sofnaði, sama hversu mikið ég reyndi að halda honum vakandi og var auðveldasta lausnin peli því þá drakk hann 90 ml á 2 tíma fresti. Þegar hann var um 3.- 4. mánaða var hann kominn alveg á pela því ég hafði litla mjólk. Í dag 6½man seinna er ennþá mjólk í brjóstunum á mér ef ég kreisti þá sprautast út. Mig langar svakalega að hafa drenginn á brjósti og er búin að kaupa mér hjálparbrjóst, mexíkanahatt og hvað eina, en hann vill ekkert af þessu. Hann er meira að segja svo ákveðinn að hann öskrar ef ég held á honum eins og þegar móðir gefur brjóst.  Hann bara vill ekki vera svoleiðis, og ef ég legg hann á brjóst að þá öskrar hann ennþá meira, hristir hausinn og lætur öllum illum látum. Hann er eingöngu á pela ennþá. Mer hefur verið sagt að hann sé ekki tilbúinn að borða ennþá því hann ullar öllu út úr sér sem ég gef honum.

Spurningin mín er því: á ég að gleyma þessari brjóstagjöf? Er ekki of seint að panta sér tíma hjá brjóstaráðgjafa? Ég er svo hrædd um að það verði sagt við mig að þetta væri vonlaust núna þar sem mjólkin er svona lítil og að börn hætti yfirleitt á brjósti um þennan aldur.

Með von um skjót svör, Kristín.

 


Sæl og blessuð Kristín.

Mér þykir mjög leitt að heyra hvað þetta hefur farið óhönduglega hjá þér. Þig hefði vantað ráðgjöf fyrir mörgum mánuðum. Núna er svolítið seint í rassinn gripið. Eins og þú veist eru börn á þessum aldri orðin ansi ákveðin og vita nákvæmlega hvað þau vilja.

Það er þó alltaf þess virði að reyna ef að viljinn er fyrir hendi. Ég myndi ráðleggja þér að fara mjög varlega að honum. Ekki setja þig í gjafastellingar. Reyndu frekar þegar vel liggur á ykkur, þið eruð kannski að kúra upp í rúmi, afslöppuð. Gerðu þetta meira að leik en framkvæmd. Það getur líka verið sniðugt að fara með hann í bað og prófa þá. Þú átt að bjóða honum brjóstið þegar hann er saddur en ekki svangur. Hann þarf fyrst að læra að tengja þetta við notalegheit áður en það skiptir máli sem næring. Ef hann fæst til að grípa aðeins í vörtuna skaltu ekki fyllast ákafa heldur láta það duga í það skiptið og reyna strax aftur þegar næsta tækifæri gefst. Svona ferli getur tekið tíma og það sem skiptir mestu máli er að þetta er tveggja manna verk. Ef hann er mjög fráhverfur og sýnir mikla mótspyrnu þá myndi ég frekar ráðleggja þér að bakka heldur en að láta þetta enda með slagsmálum og skilja eftir sig óþægilegar minningar. Það er heldur aldrei of seint að tala við brjóstagjafaráðgjafa en þú þarft að vera viss um að vita hvað þú vilt að hún geri.

Með bestu óskum um gott gengi,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
3. maí 2006.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.