Vill ekki drekka á daginn, er á brjósti

10.05.2006

Sælar.

Mig langaði til að vita hvort þið ættuð einhver ráð handa mér í pokahorninu. Þannig er að dóttir mín er með bakflæði og hefur verið á lyfjum við því frá fjögurra vikna aldri. Nú er hún orðin rúmlega fjögurra mánaða og er eingöngu á brjósti. Síðast liðna viku og rúmlega það hafa ælurnar verið að aukast hjá henni og hún vill orðið ekki drekka stóran hluta dagsins. Hún drekkur mjög ört á kvöldin og nóttunni og farin að vakna oftar til þess. Hún hefur ekki verið ekki slöpp eða með hita. Getur verið að hún sé með hægðatregðu? Hún hefur alltaf haft mjög lausar hægðir og oft á dag, en mér finnst eins og þetta sé eitthvað að breytast.  Er eitthvað sem ég get gert fyrir hana til að laga ástandið?

Kveðja, ungamamma.


Sæl og blessuð ungamamma!

Það er ekki gott að segja hvort þú getur eitthvað gert til að laga ástandið. Þetta hljómar frekar eins og tilfærsla á gjöfum. Prófaðu að telja í 1 -2 sólarhringa. Ef gjafirnar ná 8-12 gjöfum á sólarhring eða allavega þeim gjafafjölda sem hún var í áður en ástandið breyttist þá er þetta í sjálfu sér í lagi. Það er ekkert aðalatriði hvernig gjafirnar raðast á sólarhringinn. Mér finnst ólíklegt að hún sé með hægðatregðu. Þau börn eru yfirleitt á annarri næringu en brjóstamjólk. Athugaðu samt hvort lyfið sem hún fær geti gefið hægðatregðu.

Ef þér finnst ælurnar hafa aukist mikið þarftu að eiga það við lækni barnsins.

Með ósk um gott gengi,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
10. maí 2006.