Spurt og svarað

22. febrúar 2015

Vill ekki pela

Sælar!

Mig langar að forvitnast aðeins. Þannig er að ég er með einn þriggja mánaða gutta sem fæddist 2950 gr. og strax frá upphafi var ég látin vekja hann á þriggja tíma fresti og ráðlagt að gefa honum ábót eftir allar gjafir inni á fæðingardeild. Ég átti líka að vigta hann eftir allar gjafir. Hann tók svo aðeins tímabil þar sem hann nennti ekki alltaf að drekka úr brjóstinu því hann þurfti að hafa meira fyrir því. Það breyttist svo og hann fór að vilja brjóstið alveg til jafns við pela en þá virtist ég ekki vera að framleiða nóg þannig að hann fékk oft ábót sem hefur svo dregið úr. Nú er svo komið að hann vill ekki pelann heldur bara brjóstið. Nú er ég bara að velta fyrir mér hvort að það geti verið að ég sé núna allt í einu farin að halda í við hann í mjólkurframleiðslu og hann sé bara saddur eftir brjóstið eða hvort hann er bara orðinn svona mömmusjúkur. Er sniðugt að prófa að mjólkurvigta hann eftir gjafir í eins og 1-2 daga til að vera viss um að hann sé að fá nóg? 

Sæl og blessuð!

Það er vel hugsanlegt að þú sért farin að framleiða nóg því þú hefur verið svo dugleg að örva framleiðsluna og minnka ábótina. Þú ættir ekki að þurfa að mjólkurvigta heldur bara fylgjast með líðan hans og svo þyngdaraukningu í hans venjubundnu vigtunum. Ef þú ert óörugg og vilt mjólkurvigta þá gerir þú það bara í stakar gjafir 1-3 skipti. Það má vera sama daginn eða á sitt hvorum deginum.

Vona að gangi vel áfram.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
22. febrúar 2015.

 Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.