Spurt og svarað

07. júní 2005

Vill yfirleitt bara hægra brjóstið en ...

Hæ, hæ!

Jæja nú er ég með eina spurningu. Ég á litla dúllu sem er 2 mánaða og hún vill yfirleitt bara taka hægra brjóstið en svo vill hún bara taka vinstra brjóstið þegar ég tek hana upp í til mín á nóttunni til að gefa henni og einstaka sinnum á kvöldin þegar hún er þreytt. Ég skil þetta ekki alveg. Þetta byrjaði fyrir nokkrum vikum þegar ég fékk stíflu í vinstra brjóstið og þá vildi hún ekki drekka úr því og hefur það bara haldist svoleiðis síðan. Áttu einhver ráð handa mér til að reyna að fá hana til að drekka úr báðum brjóstunum.

Kveðja, mamman með vandláta gríslinginn.

....................................................................

Sæl og blessuð.

Ég vil endilega að þú reynir að dreifa gjöfunum nokkuð jafnt á brjóstin. Það er glatað að láta brjóstagjöfina þróast út í að vera nær bara öðru megin. Sumar konur þurfa að gera þetta af illri nauðsyn og það er auðvitað frábært að það skuli vera hægt. En þegar bæði brjóstin eru virk og í fínu lagi þá er þetta ekkert sérstaklega sniðugt. Upphaflega er þetta manni sjálfum að kenna. Maður fer að gefa öðru megin meira en hinu megin vegna þess að það er þægilegra, liggur betur við manni í stólnum, maður er flinkari í þeirri hendi eða sterkari í þeim handlegg eða af einhverjum öðrum ástæðum (oft frekar ómerkilegum). Barnið venst þessu fljótt, stellingunni, vörtunni o.s.frv. og fer að mótmæla hinu brjóstinu. Brjóstið svarar þessari minnkandi örvun með minnkandi framleiðslu og það verður ekki til að laga ástandið. Það er mikilvægt að jafna þetta út aftur. Það hjálpar oft að breyta um gjafastað og gjafastellingu. Það hefur líka gefist vel í erfiðustu tilfellunum að þegar gjöf (á betra brjóstinu) er langt komin í kjöltustöðu þá er barninu rennt beint yfir í fótboltastöðu á hinu brjóstinu. Það má líka snúa því við. Byrja gjöf á betra brjóstinu í fótboltastöðu og renna barninu svo beint í kjöltustöðu á hinu brjóstinu. Þú skalt líka notfæra þér að barnið er tilbúið að sjúga þetta brjóst liggjandi upp í hjá þér. Farðu með hana upp í um miðjan dag, dragðu fyrir og slökktu ljósin og vittu hvað gerist. Þú mátt búast við að gjafirnar á erfiðara brjóstinu verði stuttar til að byrja með. Það er allt í lagi. Þær lengjast seinna.  

Með kveðju og von um gjafirnar jafnist,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
7. júní 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.