Spurt og svarað

22. janúar 2006

Vinna og brjóstagjöf

Hæ, hæ og takk fyrir fróðlegan vef. 

Ég er með rúmlega sex mánaða son sem er nýbyrjaður að borða en hefur verið eingöngu á brjósti hingað til. Brjóstagjöfin hefur gengið vel og hann dafnar mjög vel.  Mig langar að hafa hann á brjósti sem lengst, alla vega fram yfir fyrsta árið. Ég er að byrja að vinna í næsta mánuði, 8 tíma á dag, en þá verður hann rúmlega sjö mánaða. Pabbinn verður heima í fæðingarorlofi þá. Mér finnst mjög leiðinlegt að fara að vinna frá honum út af brjóstagjöfinni.  Ég ætla að gefa honum brjóst áður en ég fer á morgnana og svo eftir að ég kem heim eins og hann vill.  Ég tek það fram að hann er enn að drekka á þriggja tíma fresti á nóttunni.  

Spurningin er, hvað á hann að fá þegar ég er í burtu? Hann fær graut á morgnana, brauðmáltíð í hádeginu, ávexti um miðjan daginn og grænmeti og kjöt á kvöldin.  Á pabbinn að gefa honum stoðmjólk í pela  þess á milli og þá hvað mikið, eða er nóg fyrir hann fá bara matinn?

Með fyrirfram þökk ein pínu stressuð brjóstamamma.

.....................................................................................

Sæl og blessuð!

Það er alveg hægt að halda áfram brjóstagjöf þó að þú byrjir að vinna. Þú segir að hann drekki enn þrisvar sinnum á næturnar og ég geri ráð fyrir að hann drekki nokkuð oft á daginn líka. Venjan er að þegar börn byrja að borða fasta fæðu, þá dregur smám saman úr mjólkurframleiðslunni vegna þess að börnin mettast af fæðunni og þurfa þess vegna ekki jafnmikið á móðurmjólkinni að halda. Ég myndi ráðleggja þér að fækka gjöfum og byrja þá á næturgjöfunum, hann á ekki að þurfa að drekka svona oft á næturnar, þú getur prófað aðrar aðferðir til að hugga hann, eins og t.d. snuðið eða að vefja sængina eða teppi þétt um hann, strjúka blíðlega um vangann eða annað sem þú finnur út að hjálpar. Börn eiga að geta sofið alla nóttina án næringar frá 6-7 mánaða aldri en það er oftar af vana og þörf á hlýju og nærveru sem þau drekka eftir þann aldur frekar en næringarþörf. Það er í fínu legi ef öllum líður vel með það en ef maður er að reyna að fækka gjöfum t.d.vegna vinnu, þá er ágætt að byrja þarna. Þú gætir prófað að mjólka þig fyrir eina til tvær gjafir á dag til að gefa honum þegar þú ert að vinna og haldið þannig fullri brjóstagjöf áfram en þá þarft þú að hafa aðstöðu til að geta mjólkað þig í vinnutímanum einu sinni til tvisvar því annars er viðbúið að þrýstingurinn í brjóstunum verði óþægilegur og jafnvel fari að leka og hættan á stíflum aukist. Ef það er mögulegt að pabbinn komi með barnið í hádeginu og þú gætir gefið, þá léttir það á brjóstunum og þá ættir þú ekki að þurfa að mjólka þig aukalega. Hinn kosturinn er að gefa vatn úr stútkönnu með þeim máltíðum sem eru meðan þú ert fjarverandi og byrja einnig með stoðmjólk með í litlum mæli (100- 200 ml.) Þannig gætir þú haldið uppi brjóstagjöf áfram með því að fækka markvisst gjöfum á næturnar en gefa brjóstið eins og barnið vill sjúga eftir að þú kemur heim ásamt öðrum máltíðum.

Ég vona að þetta hjálpi og gangi þér vel

Ingibjörg Baldursdóttir,
hjúkrunarfræðingur og brjóstagjafaráðgjafi,
22. janúar 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.