Spurt og svarað

20. júní 2009

Virkar ekki að pumpa annað brjóstið

Góðan dag!

Ég á rúmlega 5 vikna gamla stelpu og brjóstagjöfin gengur núna rosalega vel. Fyrstu dagarnir gengu verr eins og hjá mörgum. Ég fékk sár á aðra geirvörtuna og brá á það ráð að nota mexíkanahatt á brjóstið í rúma viku. Síðan þá hefur mér fundist eins og það sé minna í því brjósti, þó stelpan taki það jafnvel og hitt og kvarti ekkert undan því. Ég hef tekið eftir því að úr brjóstinu sem að ekki var notaður hattur á sprautast mjólkin út en mér finnst það ekki með hitt brjóstið. Nú er ég að reyna að mjólka mig með handpumpu til að eiga í frysti ef ég þarf að bregða mér frá. Það gengur rosalega vel með brjóstið sem að ég notaði ekki hattinn á en kemur nánast ekkert úr hinu. Það er mikil vinna að mjólka sig ef ég næ bara úr öðru brjóstinu og er tímafrekt. Er eitthvað sem ég get gert til að þetta gangi betur? Stelpan mín er eingöngu á brjóstamjólk og hefur þyngst svakalega vel. Ég vil halda áfram að hafa hana á brjósti en velti fyrir mér hvaða áhrif það geti haft ef hún fær þurrmjólk í þau fáu skipti sem að ég fer út í stað brjóstamjólkur? Það er freistandi að kaupa þurrmjólk þar sem að mér leiðist ógurlega þessi pumpun. Ég er svo heppin að þurfa ekki oft að fara frá henni, kannski 2svar - 3svar í mánuði og þá aldrei lengi í einu, en nógu lengi til að það þyrfti eina gjöf í fjarveru minni. Afsakaðu langlokuna.

Kveðja.


 

Sæl og blessuð!

Það er gott að gengur vel með brjóstagjöfina núna en leiðinlegt að þú hafir þurft að grípa til þessa óyndisúrræðis í byrjuninni. Þú getur reynt að örva upp meiri framleiðslu á verra brjóstinu með því að leggja oftar á það sérstaklega ef þú átt von á litlum aukagjöfum. Svo geturðu tvípumpað það þegar þú ert að mjólka þig. Það þýðir að þú mjólkar úr þessa dropa sem koma með heitum bakstri, nuddi og kreistun. Stoppar svo í 3-5 mín. og mjólkar svo aftur. Eftir pumpunina reynirðu að handmjólka í nokkrar mínútur. Svona aðgerðir getað skilað ágætri aukningu á nokkrum dögum. Auðvitað er það ekkert freistandi að kaupa þurrmjólk. Þegar þú ert búin að vinna að því að allt gangi vel og búin að ná því og barnið þyngist þá borgar sig ekki að taka áhættu á að eitthvað fari úrskeiðis. Varnirnar gegna sjúkdómum í meltingarfærunum skemmast við 1 þurrmjólkurgjöf og það er talið geta tekið barnið 2 vikur að vinna það upp aftur. Þér er óhætt að trúa því að nokkrar pumpanir margborga sig.

Gangi þér vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
20. júní 2009

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.