Vítamín og brjóstagjöf

12.11.2004

Sælar allar.

Hvernig er það með vítamín og barn á brjósti? Ég er með eina sem er 16 daga gömul og ég var svona að velta því fyrir mér hvort ég mætti taka inn t.d. e-vítamín 500 a.e., Duroferon 100 mg járntöflur, sólhatt, lýsi og þessar brúnu töflur sem fylgja með í lýsishylkja pökkunum o.þ.h. töflur og vítamín?

Með kærri þökk :-)

.......................................................................

Sæl og blessuð vítamínkona.

Ef fæðan er rétt samansett þarf kona með barn á brjósti ekki á neinum aukavítamínum eða steinefnum að halda. Það er þó frekar ólíklegt að þorri kvenna passi svo rækilega upp á fæði sitt. Almennt fæði kvenna hér á landi er trúlega nálægt því að uppfylla allar vítamínkröfur, þannig að það sem upp á vantar er mjög lítið.

Vítamín og steinefni eru þeirrar náttúru að líkaminn þarfnast þeirra í mjög litlu mæli (þess vegna orðið snefilefni). Því er það svo að of mikil inntaka á sumum þessara efna setja líkamann í vanda með að losna við það sem er umfram. Efnin geta hlaðist upp í lifur og fitu og valdið eituráhrifum. Þannig að það er ástæða til að passa að borða ekki of mikið af snefilefnum.

Ég veit ekki hvort upptalningin hjá þér eru vangaveltur um hvað af þessu er gott að taka því ég ætla rétt að vona að þú sért ekki að hugsa um að taka þetta allt á sama deginum. 

  • Ráðlagður dagskammtur fyrir konu með barn á brjósti af E-vítamíni eru 16 a.e. Það er því ekki skynsamlegt að taka 500 a.e.
  • Ráðlagður dagskammtur af járni er 50-100 mg. Það fer að takmörkuðu leyti yfir í brjóstamjólk þannig að það eykst ekki í mjólkinni ef tekið er meira.
  • Það er ekkert vítamín í Sólhatti en það er tekið til að efla ónæmiskerfið. Það er varað við að taka það lengur en 8 vikur enda yfirleitt tekið í stöku skömmtum en ekki jafnt og þétt.
  • Í lýsi er bæði A og D vítamín ásamt mikilvægum fituefnum. Dagskammtur af A-vítamíni má ekki fara yfir 5000 ein. og D-vítamín má heldur ekki taka of mikið af. Ráðlagður dagskammtur af því er 400 a.e.
  • Í brúnu hylkjunum sem þú nefnir eru vítamín og steinefni, flest í ráðlögðum dagskömmtum eða meira. Þannig að því má auðvitað ekki bæti við hitt sem á undan er talið. Það er annaðhvort eða.

Aðrar vítamíntöflur geta verið jafngóðar. En passaðu að lesa vel utan á glösin og athugaðu að gildin séu sambærileg (alþjóðlegar einingar, milligrömm míkrógrömm o.s.frv.). Og að lokum skaltu hafa í huga að vítamín og steinefni úr ómatreiddu fæði nýtist líkamanum alltaf best.

Með hreystikveðjum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
12. nóvember 2004.