Vítamín og brjóstagjöf

01.06.2007

Sæl!

Ég las vefinn mikið á meðgöngunni og hann nýttist mér mjög vel svo ég vil byrja á að þakka fyrir góðan upplýsingagrunn. Ég las fyrirspurnirnar um vítamín og brjóstagjafir en mig langar að spyrja hvaða vítamín er best að taka þegar maður er með barn á brjósti. Tók „Með barni“ alla meðgönguna og langar að hafa brjóstamjólkina sem besta fyrir litlu dúlluna mína sem er viku gömul. Ég veit ekki alveg hvaða vítamín hentar best núna, hvort það er lýsi og þetta omega-3 dæmi eða hvort maður á að taka einhverjar fjölvítamíntöflur eða kannski bara eitthvað allt annað.

Með von um svar.


Sæl og blessuð.

Svarið við þessu er kannski ekki svo einfalt. Þörf fyrir vítamín og önnur snefilefni fer eftir því hve mikið er af þeim í almennu fæði hverrar manneskju. Með auknu framboði á fjölbreyttu fæði fer þörf fyrir aukavítamín minnkandi. Á hinn bóginn er fólk misduglegt að borða fjölbreytt fæði og þá geta töflur hjálpað. Við hér á norðurhjara fáum mjög litla birtu á okkur í marga mánuði samfellt yfir veturinn. Þá er hætta á að okkur fari að vanta D-vítamín í kroppinn. Þess vegna er lýsistaka talin mjög góð fyrir okkur. Það er hins vegar enginn vandi fyrir okkur að fá önnur vítamín og steinefni ef við borðum hollt fæði. Ef fæðið er hins vegar lélegt er ágætt að taka eins og eina fjölvítamíntöflu daglega.

Vona að þetta hjálpi.         


Kær kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
31. maí 2007.